153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

fríverslunarsamningur við Breta.

[15:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Forseti. Við skulum hafa það á hreinu að hækkun matvælaverðs hér á Íslandi leiða þær vörur sem eru verndaðar af tollum; öllum tollmúrunum og öllum undanþágunum frá samkeppnislögum. Þær leiða verðlagshækkanir hér heima. Síðan talar hæstv. ráðherra um mat manna á þeim tíma. Mat hverra? Var haft samráð við utanríkismálanefnd um þetta? Nei. Var haft samráð við Neytendasamtökin um þetta? Nei. Var haft samráð við Samkeppniseftirlitið um að meta þennan samning og hvað hann hefði í för með sér fyrir íslenska neytendur og íslensk heimili? Nei. Það var ekki hlustað eða leitað til þeirra aðila sem varða allt samfélagið, bara var leitað til hagsmunaaðilanna sem snerta landbúnaðinn. Mér finnst miður að umsagna hafi ekki verið leitað víðar, enda hefur reynslan sýnt að þegar við opnum aðeins, hver er þá reynslan fyrir íslenskan landbúnað? Íslenskur landbúnaður herðir sig og styrkir. Við sjáum það í grænmetinu sem var aldrei sterkara en í dag þegar samkeppnin er jafn mikil og raun ber vitni. Við eigum að hafa trú á íslenskum landbúnaði hvað þetta varðar, en heildarsamhengi hlutanna, hagsmunir íslenskra heimila, (Forseti hringir.) var ekki tekið inn í þessa breytu ríkisstjórnarinnar sem féll enn og aftur í þá gildru að segja já við sérhagsmunaaðilum.