153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

viðbrögð stjórnvalda vegna hælisleitenda.

[15:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Einu sinni sem oftar fer hæstv. fjármálaráðherra ágætlega yfir gang mála en svarar þó ekki spurningunum, hvorki spurningunni um hvort von sé á einhverju meiru, einhverju sem raunverulega getur haft áhrif á ástandið — hvetur þingið bara til að afgreiða þynnta litla útlendingafrumvarpið — og heldur ekki um hvort við megum vænta þess að hæstv. dómsmálaráðherra muni áfram fylgja þessum málum eftir.

Þá reyni ég aðra spurningu. Hæstv. forsætisráðherra tilkynnti nýverið, nú um hátíðarnar, að til stæði að skylda opinbera starfsmenn og kjörna fulltrúa á námskeið, einhvers konar innrætingarnámskeið. Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað finnst honum um þetta? Mun Sjálfstæðisflokkurinn virkilega styðja slíkt og þá nýju ríkisstofnun sem á að fylgja því? Og ég er ekki að spyrja um umbúðirnar. Ég er í prinsippinu að spyrja hvort það sé ásættanlegt að mati formanns Sjálfstæðisflokksins að á Íslandi á 21. öld, frjálslyndu lýðræðisríki eins og það var nú jafnan talið, verði innleitt skyldunámskeið um hugarfar og tjáningu fyrir ríkisstarfsmenn, (Forseti hringir.) opinbera starfsmenn almennt og stjórnmálamenn.