153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

viðbrögð stjórnvalda vegna hælisleitenda.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf enginn að gera ráð fyrir að með þessu þingmáli sem er hér til afgreiðslu á Alþingi um málefni flóttafólks, hælisleitenda, þeirra sem óska eftir alþjóðlegri vernd, verði málinu lokið. Þetta er stöðug vinna og ráðherrann verður áfram með vaktina yfir þann málaflokk til að skoða hvað fleira þarf að gera. Ég hef skilið það þannig, varðandi þá umræðu sem átt hefur sér stað um hatursorðræðu, að einhver starfshópur hafi gert þetta að tillögu og forsætisráðherra hyggist fleyta þeirri tillögu hingað inn í þingið. Almennt séð verð ég að segja að ég geld mikinn varhug við því að skylda fólk til að fara á námskeið um einhverja tiltekna hluti og ætla bara að áskilja mér rétt til að skoða tillöguna þegar hún kemur fram; hvers vegna hún er komin fram og hversu líklegt er að hún geti orðið að einhverju gagni yfir höfuð um þessi efni. En tillöguna hef ég bara einfaldlega ekki séð enn þá.