Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki þetta með Úkraínu og hef oft rætt það hér í þinginu, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur misst af því. En um það gilda sérstakar reglur eins og hann ætti að þekkja. Við erum hér að tala um almennan vanda, 100 milljóna manna vanda, flóttamannavandann í heiminum, og verðum að leitast við að líta á heildarmyndina og hvernig tekist er á við vandann í heild. Ég hélt því ekki fram að flestir kæmu til Íslands frá Afríku. Ég setti mannfjöldaþróun og í sumum tilvikum aukna velmegun í Afríku í samhengi við flóttamannastrauminn á heimsvísu, og til Evrópu ekki hvað síst. Við verðum að líta á heildarmyndina ef við ætlum að koma með lausnir sem eitthvert gagn er að. Og það er rétt, sem hv. þingmaður segir, hingað koma margir frá Venesúela í gegnum Spán, í gegnum land sem tekur á móti fólki frá Venesúela þar sem töluð er sama tunga og menningin á að einhverju leyti sameiginlegar rætur, en það kýs engu að síður að halda ferð sinni áfram til Íslands. (Forseti hringir.) Það er vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa búið til slíka hvata eða segla eins og hæstv. dómsmálaráðherra kallar það.