Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, við erum einungis að taka örlítið brot, brotabrot, af þeim mikla fjölda sem hefur þurft að yfirgefa Venesúela. En það virðist vera að það sé voða auðvelt að nota einhverjar svona staðreyndir og segja: Það er mikill fjöldi, fullt af fólki. Menn verða, einmitt eins og hv. þingmaður sagði, að kynna sér málið aðeins betur: Af hverju er fólkið að flýja? Já, eru svona margir út um allan heim? Sem dæmi þá er stór hluti sem hreinlega labbar frá Venesúela í gegnum Kólumbíu og niður til Perú. Það er það land sem hefur tekið á móti hvað flestum. Það er líka hópur sem fer norður á við. Yfir 250.000 manns hafa t.d. sótt um í Bandaríkjunum. Brasilía og Kólumbía, þetta eru allt lönd sem fólk sest að í. Við heyrðum hér í ræðu í gær hjá einum hv. þingmanni að það væri skrýtið að fólk flýði til Spánar og þar væri tungumál sem þetta fólk talaði og samt settist það ekki að þar. Það sest bara víst að þar, það hafa vel yfir 20.000 manns sótt um hæli á Spáni. Meira að segja lítið smáríki eins og Trínidad og Tóbagó, sem er í Karíbahafinu, hefur tekið á móti tífalt fleiri en við. Já, þetta er stórt vandamál, það er bara að gerast í annarri heimsálfu og við heyrum ekki alltaf fréttir af því hvað er að gerast á öðrum stöðum í heiminum og höldum þess vegna kannski að þarna séu bara efnahagslegir flóttamenn.