Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek enn og aftur undir þessa beiðni og velti því reyndar fyrir mér — ég er enn að læra reglurnar en mér skilst að öllum þingmönnum sé skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni, en það hlýtur að þýða að einhverjar skýringar þurfi á því þegar þeir eru ekki á staðnum, bara svona almennt. Til að nefna það þá átta ég mig ekki alveg á því þegar því er borið við að það sé engin nauðsyn fyrir hæstv. ráðherra að vera hérna. Það er ekki eins og þetta mál sé honum ekki viðkomandi, það er honum viðkomandi sem ráðherra og þingmanni.

Ég vil líka þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að vera hérna og ítreka tilhlökkun mína að eiga þetta samtal við hana eins lengi og þurfa þykir, en lýsi jafnframt yfir vonbrigðum yfir því að nú hef ég séð nokkra þingmenn meiri hlutans gæða sér á köku hérna frammi. Það væri frábært að fá fleiri þingmenn sem styðja þetta frumvarp til að koma hingað og eiga þetta samtal við okkur og útskýra fyrir okkur hvernig þau geta stutt þetta og hvort þau raunverulega viti hvað þau eru að styðja. (Forseti hringir.) Mig grunar reyndar að það eigi við um ansi marga í meiri hlutanum á þingi, að þau viti hreinlega ekki hvað það er sem þau eru að samþykkja. En ég mun útskýra það fyrir þeim, engar áhyggjur.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ræðutími undir liðnum fundarstjórn forseta er ein mínúta.)