Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:55]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram að ræða tölur og stóra samhengið, af því að þetta hefur þá tengingu við frumvarpið og umræðuna, um það að til þess að gera breytingar í þessa veru, sem hafa áhrif á réttindi fólks, þá finnst mér alla vega persónulega að það verði að vera einhverjir ljósir og miklir hagsmunir undir. Þess vegna hef ég verið að hlusta eftir umræðunni, eftir að hafa skoðað frumvarpið og greinargerðina og önnur gögn, til að reyna að átta mig á því hvaða hagsmunir eru þarna undir og hvort þeir séu nógu stórvægilegir til að þeir réttlæti þá áhættu sem er tekin miðað við viðvaranir um að réttindi fólks séu skert. Svo ég skjóti aðeins inn í það er aftur óljóst á hverja þessar breytingar hafa í raun áhrif. Hvað eru það stórir hópar?

Önnur tala sem setur hlutina aðeins í samhengi er fjöldi innflytjenda hér á Íslandi í heild. Þann 1. janúar í fyrra voru innflytjendur á Íslandi í heildina 61.148 eða 16,3% mannfjöldans. Þetta er svona hálf Reykjavík. Þetta nefni ég sérstaklega í ljósi þess að margt af því sem hefur verið rakið, eftir því sem ég hef hlustað eftir hér í þingsalnum, um nauðsyn þess að taka aðeins á þessum afmarkaða hópi, sem er fólk sem kemur og sækir um vernd — sé m.a. húsnæði, heilbrigðisþjónusta, alls konar aðrir þjónustuþættir sem allt fólk þarf á að halda sem engin sérstök ástæða er, eða mér er alla vega ekki kunnugt um gögn sem sýna fram á að umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk almennt — þarf það á meiri heilbrigðisþjónustu að halda að meðaltali en t.d. almennur innflytjandi? Ég efa það. Það hefur alla vega ekki verið sýnt fram á að það sé einhvern veginn skilvirkari leið að fækka í þessum hópi til að draga úr álagi á heilbrigðisþjónustuna en t.d. að fara bara í innflytjendur almennt, sem er miklu stærri heildartala. En ég held að það sé vegna þess að það þykir mjög óvinsælt núorðið, sem betur fer, að vaða í innflytjendur almennt, að tala gegn því. Það er bara almenn samstaða um að það sé bara í góðu lagi með það og að álagið af því, ef svo má segja, jafni sig svolítið, þótt við munum alveg, alla vega við sem erum ekki alveg nýfædd, eftir orðræðu sem var t.d. áður en við fórum í EES og áður en voru gerðar tilslakanir gagnvart hverjir mættu koma hingað. Það voru alls konar varnaðarorð um að hér myndi fólk koma og flæða yfir og við myndum ekkert ráða við þetta. Ég er nefnilega svolítið á því að þetta jafni sig í kerfi sem er nokkuð frjálst og þar sem er ekki alltaf verið að setja upp girðingar. Ég trúi á framboð og eftirspurn, að þessir hlutir jafni sig svolítið út. Við erum hérna með ákveðið framboð á húsnæði og alveg sama hvernig reglurnar eru þá erum við ekki að fá yfir okkur einhverja holskeflu af fólki sem hrúgast upp og er ekki með húsnæði, það alla vega þyrfti að koma mjög mikið til, alla vega hér á eyju þar sem er erfitt fyrir fólk að koma. Svona hefur komið fyrir og er veruleiki sem t.d. nágrannaríki landa þar sem er stríðsástand, verulegur fólksflótti og mikið af fólki á flótta — það er veruleiki sem fólk þar býr við núna og eru allt aðrar áskoranir en okkar.