Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:29]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nokkuð kúnstugt og ágætt að heyra í hv. þingmanni, sem hefur meiri reynslu en sá sem hér stendur af bæði þingstörfum og störfum í ríkisstjórn, miðla sinni sýn á stöðu þessa máls og hvernig þetta blasir við honum. Ég tek undir að þetta er óþægileg staða og ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum, verandi varaþingmaður sem er að koma í þriðja sinn, kannski með takmarkaða reynslu af hvernig mál ganga hér fyrir sig. Ég sá fyrir mér að fólk úr öllum áttum myndi mæta og kannski ekkert endilega öll halda langar ræður eða vera endalaust í andsvörum og takast á, en alla vega halda einhverja framsögu um málið sem fyrir liggur og afstöðu sína og bjóða kannski upp á smáskoðanaskipti svo að það liggi fyrir hvort fólk styðji málið eða ekki. Og þá líka að hægt sé að ýta aðeins í fólk, og svona bara eins og þessi vettvangur gengur út á, að fá fram sjónarmið og mögulega að fá fólk til að skipta um skoðun og líka að hlutir liggi fyrir upp á söguna að gera.

Nú eru umræður um lögskýringargögn sem geta skipt máli ef frumvörp verða að lögum, geta skipt máli upp á túlkun, þannig að mér finnst þetta allt hið versta mál. Ég held ég verði bara að spyrja þingmanninn: Hvað er til ráða? Hvað getur stjórnarandstaðan gert í svona stöðu?