Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður endaði á spurningu sem ég hef mikið velt fyrir mér í mörg ár og er svo sem ekki kominn með endanlegt svar við. En varðandi skort á þátttöku stjórnarliða í þessari umræðu þá getur maður ekki annað en ályktað sem svo að það séu vísbendingar a.m.k. um að þingmennirnir séu ekki nógu ánægður með málið, ekki nógu stoltir af því til þess að mæta hér, tala fyrir því og útskýra kosti þess.

Það getur verið af ólíkum ástæðum. Annars vegar, eins og ég nefndi áðan, að þingflokkur Sjálfstæðismanna tafði afgreiðslu málsins og gerði við það fyrirvara, væntanlega af því að það væri ekki nógu gott. Og hins vegar vegna þess að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs eru ósáttir við eitthvað í þessu líka. Þrátt fyrir að hafa þó fengið aftur og aftur að breyta þessu máli Sjálfstæðismanna, sem virkar ekki á hinn veginn virðist vera, sem bara vonast til að fá einhvern veginn að klára þetta til að geta sagst hafa gert eitthvað. Þeir séu búnir að gera breytingar á lögum um útlendinga þannig að þeir séu að taka á vandanum, jafnvel þó að aðferðin við að taka á vandanum dugi lítið sem ekki neitt. Þetta er alltaf það sama, þetta eru bara umbúðirnar frekar en innihaldið, að geta sagst hafa afgreitt mál um útlendinga.

Þrátt fyrir að það sé gömul saga og ný með stöðu stjórnarandstöðu gagnvart ríkisstjórn þá sjáum við, í umfjöllun um þetta mál, dálítið nýja hluti gerast eins og þetta nýjasta nú í dag með útskýringar hæstv. félagsmálaráðherra um að þetta væri í raun ekki hans mál. Þá velti ég fyrir mér, frú forseti, hvort það gefi ekki tilefni til að biðja hæstv. ráðherra að kíkja á okkur hérna og taka aðeins þátt í umræðunni og skýra afstöðu sína.