Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið. Það sem ég er enn að dunda mér við að útskýra, í bútum, þar sem ræðutími er stuttur, eru athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við nýja skilgreiningu í þessu lagafrumvarpi sem lögð er til á hugtakinu „endurtekin umsókn“ í útlendingalögum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að við skilgreiningu hugtaksins hafi verið litið til skilgreiningar sambærilegs hugtaks í Evróputilskipun, sem er tilgreind í greinargerðinni. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur hins vegar skilgreininguna sem fram kemur í lögunum ekki fullnægjandi og segir m.a., með leyfi forseta:

„Að mati Flóttamannastofnunarinnar er aðeins réttlætanlegt að meðhöndla umsókn sem endurtekna umsókn ef fyrri umsóknin var tekin til efnislegrar meðferðar, þar sem farið var eftir öllum tilheyrandi réttarfarsreglum.“

Það voru auðvitað vonbrigði að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi ekki einu sinni séð tilefni til þess að bregðast við athugasemdum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þar sem stofnunin nýtur mikillar virðingar og er talin vera mjög hógvær í sínum tillögum og ábendingum og er í rauninni alltaf bara að krefjast lágmarksréttaröryggis fyrir flóttafólk. Það eru sannarlega vonbrigði að meiri hlutinn hafi ekki brugðist við þessu með neinum hætti. Engar tillögur eru lagðar til í breytingartillögum meiri hlutans sem koma til móts við þessar athugasemdir, enda var búið að gera drög að meirihlutaáliti þegar umsögn Flóttamannastofnunarinnar kom í hús. Ekki þótti tilefni til að halda vinnunni áfram í nefndinni þar sem búið var að ákveða að afgreiða þetta úr nefndinni þrátt fyrir þessar alvarlegu athugasemdir og skýrar og einfaldar tillögur að lagfæringum á lögunum.

Ég ætla aðeins að grípa aftur niður í umsögn Flóttamannastofnunarinnar, með leyfi forseta:

„Í grundvallaratriðum er Flóttamannastofnun samþykk því að farið sé yfir það fyrirfram í tilfelli endurtekinna umsókna hvort ný atriði séu til staðar eða hafi verið sett fram sem kalli eftir efnislegri meðferð á umsókninni. Slík nálgun gerir það mögulegt að koma fljótlega auga á það þegar endurteknar umsóknir uppfylla ekki þessi skilyrði. Flóttamannastofnunin hefur þó áhyggjur af þeirri hækkun á þröskuldi sönnunargagna sem lögð eru til fyrir endurteknar umsóknir. Að mati Flóttamannastofnunar ætti ekki að meta það í fyrirframskoðun hvort slík atriði feli í sér „verulega auknar líkur“ á því að umsækjandinn hljóti alþjóðlega vernd. Taka ber umsókn til nýrrar efnislegrar meðferðar til að ákvarða hvort umsækjandinn eigi rétt á alþjóðlegri vernd.“

Þetta er umsögn Flóttamannastofnunarinnar við ákvæðið. Í lok umsagnarinnar, sem tekur á fleiri atriðum í frumvarpinu, koma tillögurnar og þær eru ákaflega skýrar og einfaldar, með leyfi forseta:

„Út frá ofanverðu mælist Flóttamannastofnunin til þess að Ísland íhugi að gera breytingar á tillögunni til að:

a. Tryggja það að aðeins sé litið á umsókn sem endurtekna umsókn í þeim tilfellum þar sem upprunalega umsóknin var tekin til fullrar efnislegrar meðferðar.“ — Og örlítið síðar: „d. Fjarlægja skilyrðið um „verulega auknar líkur á því að fallist verði á“ umsókn „um alþjóðlega vernd“ þegar endurteknar umsóknir eru metnar í a-lið í tillagðri 35. gr.“

Líkt og ég sagði voru það sannarlega vonbrigði að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar skyldi ekki bregðast við þessum athugasemdum en ég get því miður ekki sagt að það komi mér á óvart. Ástæðan er þessi: Tilgangur þessarar breytingartillögu í frumvarpinu hefur ekkert með endurteknar umsóknir að gera, ekki neitt. Hún gengur lengra og fellir burt rétt fólks til að fá endurupptöku máls síns ef forsendur hafa breyst eða ný gögn hafa komið fram, sem er bara í almennum stjórnsýslulögum á Íslandi. Það kemur fram í greinargerð með þessum tillögum að það er gert vegna þess að beiðnum um endurupptöku hefur fjölgað, þær eru orðnar margar. Það liggur fyrir að þorri þeirra beiðna um endurupptöku sem hafa verið lagðar fram að undanförnu eru vegna þess að málsmeðferð viðkomandi máls hefur dregist fram úr tímafrestum laganna, 12 mánuðum, og það vegna Covid-heimsfaraldursins. Það er vegna þessa sem orðið hefur nokkur fjölgun á beiðnum um endurupptöku — sem fólk á rétt á, þarna á fólk rétt á endurupptöku máls síns vegna þess að forsendur eru breyttar.

Það sem meiri hlutinn er að leggja hér til (Forseti hringir.) að verði samþykkt sem lög frá Alþingi er að þrátt fyrir að fólk eigi þennan rétt verði hann einfaldlega afnuminn, (Forseti hringir.) þannig að þú getir ekki sótt um endurupptöku í þessum tilvikum heldur þurfir þú að sækja um að nýju. Þá er auðvitað ný umsókn og þá er málsmeðferðartíminn ekkert kominn fram úr hófi. (Forseti hringir.) Þetta er það sem frumvarpshöfundum gengur til.