Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég treysti því og vona að einhverjir þingmenn meiri hlutans séu að hlusta á það sem ég er að reyna að segja hér. Það hvarflar að mér að mögulega verði þau til í eitthvert spjall þegar þau átta sig á því hvað það er sem er í gangi hérna, geta kannski komið og útskýrt hvernig þau skilja þetta eða hvaða önnur ástæða er fyrir því að þau telja tækt að samþykkja þá mannvonsku sem hér er verið að reyna að koma í gegnum þingið og gera að landslögum. Ég ætla að reyna að láta staðar numið, alla vega í bili, við 1. gr. frumvarpsins, með því bara að skauta svolítið ódýrt yfir b-lið 1. gr., en það er viðbót við skilgreiningu sem er fyrir í lögum, þ.e. skilgreiningu á umsækjanda um alþjóðlega vernd. Í frumvarpinu er lagt til að við þá skilgreiningu, á því hvað er umsækjandi um alþjóðlega vernd, bætist eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Útlendingur telst ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi.“

Þessu ákvæði er ætlað að spila saman með 6. gr. frumvarpsins um niðurfellingu þjónustu að 30 dögum liðnum, eftir lokaákvörðun. Ég ætla að lesa upp úr greinargerð við þetta ákvæði í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Lagt er til að bætt verði nýjum málslið við 25. tölul. 3. gr. laganna, sem verður 26. tölul. sömu greinar, þess efnis að með umsækjanda um alþjóðlega vernd sé ekki átt við útlending sem fengið hefur endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi. Er þetta lagt til í því skyni að taka af allan vafa hvað þetta varðar og tryggja samræmda framkvæmd laganna og túlkun ákvæða þeirra. Í framkvæmd hefur þessi aðgreining milli umsækjanda um alþjóðlega vernd annars vegar og útlending hins vegar ekki verið nægilega fylgt þrátt fyrir að gildandi lög geri ráð fyrir slíku. Hefur það einna helst birst við beitingu 33. gr. laganna eins og nánar er rakið í skýringum við 6. gr. frumvarpsins.“

Þetta ákvæði, þessi viðbót við skilgreininguna á umsækjendum um alþjóðlega vernd, er að mínu mati enn annað dæmi um það lögfræðilega klúður sem þetta frumvarp er. Það skilur enginn nákvæmlega hvað það er sem gerist á hvaða tímapunkti er varðar þjónustuna. Þarna er verið að kveða á um það að þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd, hælisleitandi, hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu þá teljist hann ekki lengur hælisleitandi. Og samkvæmt lögunum eins og þau eru eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á tiltekinni þjónustu og mætti halda því fram að með þessu einu falli þjónustan niður við umsækjanda; þegar hann hættir að vera umsækjandi um alþjóðlega vernd þá hættir þjónusta við umsækjanda um alþjóðlega vernd að eiga við um hann. Ókei, samt sjá frumvarpshöfundar ástæðu til að kveða enn frekar á um niðurfellingu þjónustu til að flækja þetta aðeins meira, gera þetta enn óskiljanlegra fyrir þau sem þurfa að framfylgja þessu, sem eru Útlendingastofnun og lögreglan, sem þurfa að heimila undanþágur frá þessu og annað, og sveitarfélögin sem taka við. Þegar einstaklingur missir þjónustu sem umsækjandi um alþjóðlega vernd fer hann yfir á ábyrgð sveitarfélaganna sem svokallaður útlendingur í neyð.

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:“ — sem fjallar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd — „8. mgr. orðast svo: Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.“ — Þarna voru komnar undanþágur frá þjónustusviptingunni. Nú koma undanþágur frá undanþágunum.

Og áfram:

„Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari (Forseti hringir.) EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin (Forseti hringir.) bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Jafnframt (Forseti hringir.) eiga undanþágur 3. málsl. ekki við um þau mál.“

Ég fer fram á það við forseta að ég verði aftur sett á mælendaskrá því að ég hef hvergi nærri lokið máli mínu.