Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í umræðum um afgreiðslu og atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar hér áðan vorum við að ræða hvers vegna það ætti einfaldlega að vísa þessu máli aftur til nefndar á meðan á 2. umr. stæði. Þar töluðum við um þær ítarlegu umsagnir sem liggja fyrir frá mörgum mjög mikilsvirtum mannréttindasamtökum og stofnunum sem benda á að þetta frumvarp kunni að fela í sér alvarleg mannréttindabrot gagnvart fólki á flótta. Ég hef aðeins farið yfir þann fjölda af umsögnum sem hafa borist frá m.a. Barnaheill, landlækni, Hafnarfjarðarbæ, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélagi Íslands, Þroskahjálp, Læknafélaginu, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, prestum innflytjenda og flóttafólks, Rauða krossi Íslands, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þetta eru allt samtök eða stofnanir sem benda okkur á alvarlega ágalla á frumvarpinu og þar koma m.a. fram ábendingar um að það kunni að stangast á við stjórnarskrá lýðveldisins.

Þegar fjármálaráðherra kemur hér með sinn týpíska vaðal og er reiður og er að skamma okkur fyrir að standa í vegi fyrir meirihlutaviljanum þá vil ég einfaldlega segja: Það er ekki nóg að vera með meiri hluta þegar ákvarðanir þínar eða það sem ætlunin er að gera stangast á við stjórnarskrá. [Kliður í hliðarsal.] Það er greinilega mikill hasar þarna frammi en ég get sagt áhorfendum að það er ekkert að gerast hér inni. Það er ekki einn einasti þingmaður utan tveggja hér inni.

Þegar frumvarp stangast á við stjórnarskrá hlýtur það að vera skylda okkar, sem höfum svarið drengskapareið að stjórnarskránni, að standa í vegi fyrir samþykkt þess frumvarps, að standa í vegi fyrir því að ákvæði sem ganga gegn ákvæðum stjórnarskrár verði gerð að lögum á Alþingi Íslendinga. Það hlýtur að vera frumskylda okkar sem þingmenn. Og ef það er það ekki þá er það eitthvað skrýtin túlkun á því hvað þetta drengskaparheit að stjórnarskránni felur í sér. Svo er það bara þannig að við Píratar stöndum fyrir mannréttindi, vernd þeirra og vernd borgararéttinda. Það er bara í grunnstefnu okkar og það er grunntilgangur okkar í stjórnmálum að standa vörð um mannréttindi og þá sér í lagi jaðarsettra hópa sem misgáfulegir stjórnmálamenn ráðast oft að til að slá einhverjar pólitískar keilur.

Þess vegna stöndum við hér, virðulegi forseti, og reynum að koma því til skila að það sé óásættanlegt, eins og raunar er komist að orði í mörgum þessara umsagna sem ég vísa í, m.a. frá landlækni, að til standi að leiða í lög brot á mannréttindum fólks á flótta. Það er ótækt, virðulegi forseti. Þó að meiri hlutinn skelli skollaeyrum við og neiti að vinna þá vinnu sem þarf að vinna í þessu frumvarpi til að það standist stjórnarskrá þá verðum við auðvitað að halda áfram að reyna að tala um fyrir þeim þar til þau sjá ljósið.

Ég sé að ég hef ekki mikinn tíma eftir í þessari umferð, virðulegi forseti. En mig langar að gera að umtalsefni mínu umsagnirnar frá Íslandsdeild Amnesty International. Þau eru með mjög ítarlega umsögn þar sem m.a. er fjallað um eitt ákvæði í frumvarpinu sem fjallar um sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála sem á að eiga sér stað innan 14 daga frá því að ákvörðun Útlendingastofnunar er tekin. Ég sé að ég næ ekki að komast inn í efnisatriði þessarar umsagnar í þessari umferð en ég verð að segja að ég tek undir með þeirri umsögn og hvet alla þingmenn til að lesa hana en mun fara nánar yfir efnisatriði hennar hér á eftir þegar ég held aðra ræðu. Ég vildi hreinlega koma því á framfæri að auðvitað er það svo að þegar öll helstu mannréttindasamtök á Íslandi standa gegn frumvarpi þá dugar ekki til að fjármálaráðherra mæti hér og segi: Ég er með flest atkvæði, ég ræð. Það er ekki nóg.