Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:12]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún spyr í raun og veru um tvennt. Hún spyr um óskina eftir samráði sem allir umsagnaraðilar hafa lýst yfir að hafi ekki verið til staðar og þurfi að vera til staðar. Ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum það er ekki gert. Það er líka í samræmi við þau vinnubrögð sem maður furðar sig á, þ.e. að fyrst eigi að samþykkja þessar breytingar á lögum um útlendinga og síðan eigi að búa til einhvers konar samráð eftir á, eftir að búið er að samþykkja þessar lagabreytingar.

Ég hefði haldið að samráðið ætti að eiga sér stað áður en við færum í lagabreytingar á svo viðkvæmum málaflokki sem lög um útlendinga eru. Að sjálfsögðu er krafan um samráð fullkomlega eðlileg og sjálfsögð þegar við erum í svo viðkvæmum málaflokki sem málefni útlendinga, fólks á flótta og fólks sem leitar til okkar eftir vernd er. Ég held að það sé bara mjög eðlileg og sjálfsögð krafa. Við þurfum líka að hlusta á þá kröfu vegna þess að þetta eru engir aukvisar sem eru að senda inn umsagnir við þetta lagafrumvarp. Þetta eru alvörusamtök sem hafa mikla reynslu, þekkingu og hafa margt fram að færa í þessum málaflokki sem okkur ber, og framkvæmdaraðilum að sjálfsögðu, að hlusta á.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, um það hver mín skýring sé á því af hverju meiri hlutinn vilji ekki ganga úr skugga um hvort lagafrumvarpið stangist á við stjórnarskrá, þá er hreinlega komið að tómum kofanum hjá mér. Ég veit það ekki en ég hefði talið að lagasetning, ábyrg lagasetning, ætti alltaf að fara í gegnum þann filter, þá síu, að það sé skoðað hvort hún stangist á við stjórnarskrá Íslands og alþjóðlega sáttmála sem við höfum undirgengist, á borð við mannréttindasáttmála Evrópu. Það er hin sjálfsagða krafa um ábyrga, sjálfsagða og eðlilega stjórnsýslu og lagasetningu. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um það og þess vegna þurfi að fara aftur með málið inn í nefnd og spyrja þar enn frekari spurninga sem ég efa ekki að hv. þingmaður hafi nú þegar spurt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.