Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:20]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir hlý orð í minn garð. Jú, vissulega var það mikil og stór og erfið ákvörðun. Ég get ekki talað fyrir hönd þingmanna í meiri hlutanum en við erum jú öll manneskjur og með tilfinningar og ástæður fyrir því að við tökum ákvörðun um að taka þátt í pólitík. Ég vil trúa því að meginástæða þess að fólk vilji taka þátt í pólitík sé sú að það hafi ákveðna sýn á það hvernig við getum gert samfélag okkar betra, hvernig við getum komið betur fram við samborgara okkar, hvernig við getum stuðlað að betri lagasetningu sem gerir líf okkar betra og aðstæður okkar líka. Já, ég held að oft og tíðum sé það erfitt fyrir stjórnarþingmenn að taka ákvarðanir um að vera á málum, vissulega, auðvitað, annað væri óeðlilegt; það væri ómanneskjulegt að fólk velktist ekki aðeins í vafa um það hvort það sé sammála eða ekki. Það er vettvangur fyrir stjórnarþingmenn til þess að koma á framfæri þeim efasemdum og vangaveltum og það er í þingflokkunum. Það er í þeim stjórnmálahreyfingum sem þau starfa í sem þau geta komið fram þeim sjónarmiðum og haldið þeim til haga; barist fyrir þeim og haft áhrif á stefnu og ákvarðanir stjórnarflokkanna, flokkanna sem þau starfa í. Það er fegurðin við lýðræðið að við getum notað þessar leiðir til að hafa áhrif í samfélagi okkar, til að hafa áhrif á ákvarðanir okkar lýðræðislega kjörnu fulltrúa.

En ég held líka að þegar við erum að tala um fólk sem er í viðkvæmustu stöðunni, sem leitar til okkar eftir aðstoð og hjálp undan aðstæðum sem eru algerlega óboðlegar, þá beri okkur hreinlega siðferðisleg skylda til þess að opna faðminn og búa lagaverk okkar og innviði þannig úr garði að við getum tekið á móti fólki og tryggt því mannsæmandi líf.