Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var aðeins að fara yfir umsögnina frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og lauk máli mínu á ákalli til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um að láta verkin tala. Á síðasta kjörtímabili barðist hann fyrir því að vera gerður að sérstökum barnamálaráðherra. Honum fannst mjög mikilvægt, og ég er alveg sammála honum, að þessum málaflokki væri gert mjög hátt undir höfði. En það þarf þá líka að vera til þess að réttindi allra barna á Íslandi séu virt og vernduð. Mér hefur ekki þótt hæstv. ráðherra standa sig nógu vel þegar kemur að réttindum barna á flótta. Það sést best á því að þrátt fyrir endurteknar beiðnir okkar í Pírötum um að taka þátt í umræðunni um þetta mál, sem við vitum að mun skerða réttindi barna á flótta, þá hefur hann hvorki látið sjá sig í þessari umræðu né, svo ég viti til, beitt sér fyrir því að þeim ákvæðum verði kippt út sem hafa bein og neikvæð áhrif á réttindi barna á flótta — og það er ekki bara ég sem er að segja þetta heldur helstu mannréttindasamtök barna á Íslandi og þótt víðar væri leitað.

Ég var sem sagt að telja upp þau atriði sem við teljum að séu til staðar, þ.e. þau atriði sem við teljum að þetta frumvarp innifeli og brjóti í bága við stjórnarskrá. Ég var búin að fara yfir brottfall þjónustu, 6. gr. frumvarpsins, og sérákvæðin um börn. En síðan langaði mig að tala sérstaklega um hin ýmsu útfærsluatriði á málsmeðferð sem er í frumvarpinu og hvernig það kunni að varða 70. gr. stjórnarskrárinnar og sömuleiðis 6. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Þetta beintengist auðvitað líka jafnræðisreglunni vegna þess að í þessu frumvarpi er verið að búa til einhvers konar annars konar og takmarkaðri kæruleiðir, stjórnsýslulög, en það sem almenningur hefur aðgang að. Þar er ég t.d. að tala um beiðni um endurupptöku máls vegna nýrra gagna, vegna nýrra upplýsinga eða vegna vanbúins máls stjórnvalds. Það á allt í einu að endurskilgreina ferli sem hefur verið mjög vel skilgreint, er gríðarlega vel afmarkað og er notað í allri stjórnsýslunni á Íslandi þegar kemur að endurupptöku mála. Þar er bara búið að setja ramma utan um hvað teljast vera nýjar upplýsingar sem séu nógu umfangsmiklar eða nógu áhrifamiklar til að það megi taka málið upp að nýju o.s.frv. Það er komin ákveðin dómaframkvæmd eða a.m.k. framkvæmdareynsla á það, alveg gríðarlega mikil, en það á allt í einu fara að búa til eitthvert spánnýtt dæmi fyrir flóttafólk alveg sérstaklega. Það á sem sagt að mismuna þeim í stjórnsýslunni og alveg töluvert vegna þess að þetta mun hafa neikvæð áhrif á málsmeðferðarréttindi þeirra. Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum áhyggjur af því að þetta frumvarp stangist á við 70. gr. stjórnarskrárinnar, vegna þess að ekki er hægt að jafna aðgengi. Hér er ég ekki búin að fara út í t.d. 13. gr. mannréttindasáttmálans sem gengur út á að hafa möguleika á því að koma kvörtun um mögulegt brot á mannréttindum að hjá dómstólunum til að fá úr því skorið (Forseti hringir.) hjá þar til bæru yfirvaldi eða dómstólum hvort mannréttindabrot hafi átt sér stað. (Forseti hringir.) Það er eitthvað sem ég tel líka mikilsvert að fjalla um (Forseti hringir.) og því óska ég eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.