Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:16]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að taka fyrir og eiginlega leiðrétta þessar rangfærslur sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið með í fjölmiðlum m.a. og í viðtölum og líka hér á þingi þegar kemur að umræðunni um þetta frumvarp. Staðreyndin er náttúrlega sú að það eru lagalegir annmarkar á þessu frumvarpi sem hér um ræðir. Annars værum við ekki hér korter yfir ellefu á miðvikudegi að ræða frumvarpið sjötta daginn í röð. En það sem þessir lagalegu annmarkar felast í m.a., eins og ég nefndi, er að það á að auka heimild Útlendingastofnunar til að vísa fólki til ríkja sem Útlendingastofnun heldur að það hafi einhver tengsl við. Þetta náttúrulega býr til hóp af einhverju fólki sem er ekki hægt að flytja. Þá er auðvitað litið til fjölskyldutengsla og litið til þess hvort þau eigi vini þar og hvort þau hafi áður fengið dvalarleyfi þar og það er eins og staðan er núna bara óframkvæmanlegt og óraunsætt.

Eins og ég sagði í fyrri ræðum mínum liggur svarið í því að auka skilvirkni í kerfinu sem sér um að taka á móti fólki í neyð. Svarið liggur í því að byggja upp innviði og íslenska kerfið í heild sinni af því að það er ekki bara fyrir innflytjendur. Það að styrkja innviði er ekki bara fara að nýtast innflytjendum heldur líka íslenskum fjölskyldum. Skólar, tungumálakennsla, fjármagn til sveitarfélaga, félagsþjónusta, frístundastyrkir, húsnæði, heilbrigðiskerfið, þetta einskorðast ekki við útlendinga heldur þurfa fyrst og fremst Íslendingar að nota þetta.

Fólki á flótta er náttúrlega ekkert að fara að fækka á næstu árum, þvert á móti gæti vel verið að því fjölgi. Við sjáum ástandið í Venesúela, Úkraínu og nú Íran og þessi listi af löndum er alls ekki tæmandi. Síðan þarf líka að taka mið af fólksflutningum sökum loftslagsbreytinga sem er rosalega raunsætt og í nánd. Annaðhvort getum við haldið áfram að loka augunum fyrir þessum vanda og látið eins og hann verði leystur með því að grípa til lagabreytinga á lagabálkum sem það ríkir sátt um eða við tökumst á við þessar áskoranir, t.d. með því að byggja upp innviði og laga kerfin okkar sem myndi auðvitað ekki aðeins nýtast aðfluttu fólki heldur líka íslenskum fjölskyldum.

Eitt fyndið: Ég fór til Danmerkur í október. Þá var kosningabaráttan í gangi og þar sá ég fullt af skiltum og „pósterum“ þar sem stjórnmálaflokkar voru að tala fyrir því að börn á flótta ættu að fá að vera börn á flótta og það ætti að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum á meðan ímyndin sem við erum búin að vera selja Íslendingum um danska innflytjendapólitík er að það sé verið að senda fólk til Rúanda, að það sé danska leiðin sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar. Það voru einhverjir þingmenn sem fóru allt í einu til Rúanda í einhverja vettvangsferð til að skoða aðstöðuna þar fyrir flóttafólk. En þetta er ekkert raunin. Ég sá kosningabaráttuna. Ég sá að það er verið að leggja áherslu á að veita fólki sem þangað leitar í neyð mannsæmandi líf og það er einmitt það sem við ættum að vera að stefna að. Við ættum að stefna að því að geta tekið vel og vandlega á móti því fólki sem við tökum á móti, ekki vera að þrengja að rétti þeirra með því að grípa til einhvers konar lagabreytinga sem ríkir alls engin sátt um, og það á ekki bara við meðal þingmanna á Alþingi heldur líka meðal fólks sem eru sérfræðingar í þessum málaflokki á borð við Amnesty International, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Rauða krossinn, Barnaheill. Ég get talið upp endalaust af umsagnaraðilum sem sendu inn ítarlega og góða og vel rökstudda umsögn þar sem er talað gegn þessu frumvarpi og hvet ég meiri hlutann eindregið til að taka þær umsagnir og þær athugasemdir til skoðunar.