Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði reyndar að byrja á því að biðja um að það sé skoðað að klukkan fer í gang áður en ég hef mál mitt. Allt í lagi með þetta skiptið en vonandi er hægt að laga það. Fyrir ykkur sem eruð að koma að viðtækjunum þá er ég að fara yfir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var á allsherjarþinginu 10. desember 1948 og fara í þær greinar sem hafa skírskotun til þess frumvarps sem hér er verið að tala um. Við höfum verið að benda á að þetta frumvarp brjóti í bága við mannréttindasáttmála og mannréttindayfirlýsingar og því mikilvægt að við séum öll með það á hreinu hvað stendur í þessum samningum og yfirlýsingum. En ég var kominn að 14. gr. og í fyrsta málslið hennar stendur:

„Allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“

Þetta er ein af þeim grundvallarreglum sem síðan flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna, sem gerður var nokkrum árum seinna, byggir á. Í 15. gr. segir síðan, með leyfi forseta:

„Allir hafa rétt til ríkisfangs.“

Þetta var 1. mgr. og 2. mgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Enginn má að geðþótta svipta ríkisfangi eða rétti til þess að skipta um ríkisfang.“

16. gr. á einnig við um þetta og tengist dálítið því sem stundum hefur verið kallað fjölskyldusameining og annað tengt því. En í henni segir, með leyfi forseta, í 1. mgr.:

„Fulltíða konur og karlar hafa rétt til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis við stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.“

Já, frú forseti, jafnvel árið 1948 var til jafnréttishugsjón hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er nú gott. En nú ætla ég að hoppa yfir þó nokkrar greinar af því að þar er fjallað mikið um félagafrelsi og ýmislegt slíkt og kosningarrétt og aðra hluti sem kannski hafa ekki alveg með þetta frumvarp að gera. En næst langar mig að lesa, með leyfi forseta, 22. gr., en þar stendur:

„Allir þjóðfélagsþegnar skulu fyrir atbeina hins opinbera eða á grundvelli alþjóðasamstarfs, og í samræmi við skipulag og bjargráð hvers ríkis, eiga rétt á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindum sem eru nauðsynleg til þess að virðing þeirra og þroski fái notið sín.“

Já, frú forseti. Hér erum við komin í félagslega og efnahagslega öryggið. Mér sýnist að ég nái einni grein í viðbót í þessari ræðu. Það er 25. gr., henni er skipt í tvennt og ég ætla að byrja á 1. mgr., með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“

Seinni málsgreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.“

Já, frú forseti. Þarna koma nú orð sem við þekkjum vel: Fæði, klæði, húsnæði. Hv. þm. Inga Sæland notar það oft og athyglisvert að sjá að það er bara beint upp úr mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. En já, það gildir líka fyrir fólk á flótta.

Frú forseti, ég hef ekki náð að komast í gegnum allar greinar mannréttindayfirlýsingarinnar og óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá.