Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:20]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um einstakar greinar lagafrumvarpsins sem ég og aðrir gerum alvarlegar athugasemdir við. Ég var búin að fjalla um 7. gr. Mér fannst þar vera rosalega víðtæk heimild, eitthvað sem er tekið á á ómálefnalegum grundvelli, bara frekar matskennt og frekar hættulegt, ég þarf svo sem ekkert að fara meira yfir það í bili. En í 8. gr. frumvarpsins er breytingartillaga sem felur í sér takmarkanir, eiginlega bara verulegar takmarkanir á möguleikum þeirra sem hafa fengið alþjóðlega vernd í öðrum löndum til að fá umsókn sína um alþjóðlega vernd tekna til efnismeðferðar á Íslandi. Þessi tillaga hefur mætt mikilli andstöðu en hún er samt lögð fram aftur. Þetta er eitthvað sem umsagnaraðilar, almenningur og þingmenn, sem hafa komið upp í pontu í 2. umr. og lýst yfir andstöðu sinni gagnvart þessu frumvarpi, hafa gagnrýnt í öll önnur skipti sem þetta frumvarp hefur verið lagt fram. Þau hafa gagnrýnt nákvæmlega þetta sama ákvæði. Það er auðvitað markmiðsskýring, eða kannski ekki markmiðsskýring en allir lagabálkar eru með markmiðsákvæði þar sem er kveðið á um markmið laganna. Ég get ekki betur séð en að markmið þessara laga, og þá sérstaklega þessa lagaákvæðis, sé að útiloka þá sem hafa nú þegar fengið vernd frá því að fá efnislega meðferð á Íslandi. Það er ekki verið að taka aðstæður hvers umsækjanda nægilega vel til greina og svo er heldur ekki verið að taka aðstæður í hverju ríki til greina sem fyrri vernd kom frá. Eins og við vitum eru kannski aðstæður í ríkjum ekki alltaf eins góðar og við höldum að þær séu, jafnvel þótt manneskjan hafi fengið vernd þar fyrst, til að mynda í Grikklandi og í þeim löndum sem fólk fer oftast til áður en það kemur til Íslands, eins og t.d. Ítalíu, Ungverjalandi og Grikklandi. Þar eru milljón rannsóknir, margar fréttir og bara þekkt staðreynd að aðstæður flóttafólks í þeim löndum eru hrikalegar, í alvörunni talað. Það er ekki verið að taka þær aðstæður til greina ef þessi breyting fer í gegn og verður að lögum. Til dæmis hefur Rauði krossinn gagnrýnt þetta og önnur alþjóðleg mannréttindasamtök.

Það að útiloka möguleika fólks með þessum hætti á að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar er bara hættulegt fordæmi til frambúðar hvað varðar þessi efni. Ég veit bara ekki hvaða vegferð við erum á af því að við eigum að vera að betrumbæta kerfið okkar, við eigum að vera bæta innviðina okkar þannig að þegar kemur að því að enn fleiri fara að sækja um vernd hér á landi þá verðum við betur í stakk búin til að taka á móti fólki og veita því gott líf. Miðað við hve loftslagsváin þróast hratt er ekki útilokað að Íslendingar verði sjálfir á flótta einhvern tímann á næstu 100 eða 150 árum. Það er rosalega sorgleg staðreynd, en þangað til þá finnst mér við getum gert betur í þeim efnum og tekið á móti fólki eins og við viljum að það verði tekið á móti okkur. Ég er ekki að segja að við eigum að taka á móti öllum, það er ekki það sem Píratar eru að segja. Það sem við erum að segja er að það megi ekki þrengja enn meira að réttindum þessa viðkvæma hóps sem hingað leitar í algjörri neyð. Eins og lögin eru túlkuð í dag, jafnvel þó að þau séu góð og það sé ekkert endilega eitthvað að þeim, þá er svigrúm til að túlka þau á fremur íþyngjandi hátt og ég get ekki betur séð en að með lögfestingu þessara laga verði enn meira svigrúm til að túlka lögin á enn frekari íþyngjandi hátt. Ég veit ekki hvað það mun skilja eftir sig. Það er alltaf talað um að Ísland þurfi að virða alþjóðaskuldbindingar, að Ísland þurfi að virða Schengen-samkomulagið og svo mætti áfram telja, en það er ekkert í þeim alþjóðaskuldbindingum sem við höfum gengist undir sem skikkar okkur til að þrengja svo verulega að réttindum fólks sem hingað leitar í neyð.