Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú missti ég einhvern veginn þráðinn vegna þess að það var gert hlé á þessum fundi en ætla að gá hvort ég nái honum ekki svolítið fljótt upp aftur vegna þess að ég var að fjalla um hóp sem hefur farið lágt, hóp sem Rauði krossinn á Íslandi áttaði sig kannski fyrst á fyrir þremur árum að væri til staðar hér á landi og væri í alveg sérstaklega viðkvæmri stöðu innan þess mengis sem fólk á flótta er. Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa komið til Íslands, sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, fengið endanlega synjun í máli sínu en geta af ýmsum ástæðum ekki snúið til baka til heimalands síns og það sem kannski skiptir íslenska ríkið máli, það sem skiptir Útlendingastofnun máli, er að Útlendingastofnun getur ekki fengið stoðdeild ríkislögreglustjóra til að framkvæma þvingaða brottvísun á þessum einstaklingum vegna þess að það er einhver ósamrýmanleiki á milli íslenska ríkisins og þess ríkis sem þyrfti að samþykkja að taka á móti viðkomandi. Dæmi um þetta er flóttafólk frá Írak, sem ég var nú með töluna yfir hérna, 16 talsins, sem hafa mánuðum og jafnvel árum saman búið í þessu limbóástandi að vera búin að fá endanlega niðurstöðu síns máls hjá Útlendingastofnun og innan íslenska kerfisins en hvorki getur kerfið brottvísað þeim með valdi né treysta þessir einstaklingar sér til að fara aftur til heimalandsins á eigin vegum, kannski skiljanlega þar sem þetta eru einstaklingar sem hafa flúið það land og sótt um vernd hjá okkur.

Vandinn við þennan hóp er margþættur. Það sem er verst við það hvernig allsherjar- og menntamálanefnd, eða meiri hluti hennar, afgreiðir stöðu hópsins er að ekkert er minnst á þennan hóp hjá þeim þrátt fyrir að á þetta hafi verið minnst alla vega þegar þessi skýrsla barst allsherjar- og menntamálanefnd 30. nóvember, tveimur vikum áður en nefndin afgreiddi málið frá sér til 2. umr. Það hefði nefnilega verið hægt annars vegar að endurskoða neikvæðar breytingar í frumvarpinu sem hafa sérstök áhrif á þennan hóp og hins vegar að taka upp á sína arma jákvæðar breytingar sem Rauði krossinn leggur til.

Fyrst um neikvæðu breytingarnar. Þar sem 6. gr. frumvarpsins varðar það að skerða þjónustu og réttindi fólks 30 dögum eftir endanlega niðurstöðu þá hefur það náttúrlega bein áhrif á þennan hóp sem árum saman býr við það ástand að hafa fengið endanlega niðurstöðu umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Meiri hlutinn og ráðherra vilja bara strípa þá litlu þjónustu sem þetta fólk fær, strípa það henni, og þar erum við nú ekki að tala um nein reiðinnar býsn heldur rétt nóg til að skrimta. Með þessu væri þá verið að búa til hóp flóttafólks sem kemst hvorki lönd né strönd. Það verður heimilislaust og fátækt á Íslandi þannig að það er verið að auka á mannlega eymd með þessari tillögu. Þetta er náttúrlega viljandi gert, óttast ég. Þetta er aðferð til að svelta fólkið til hlýðni þannig að ástandið í þeirra persónulega lífi, þegar búið er að fella niður alla þjónustu og réttindi hér á landi, verði nógu slæmt til að þau geti jafnvel hugsað sér að fara aftur til heimalandsins og lent þar jafnvel í klóm einhverra kvalara sinna.

Ég kem kannski að þeim jákvæðu breytingum sem Rauði krossinn leggur til og meiri hlutanum finnst ekki ástæða til að horfa til þrátt fyrir að þær séu í samræmi við framkvæmd í nágrannalöndunum. Ég kem að því hér síðar.