Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn langar mig að fjalla um fólk í svokallaðri umborinni dvöl eins og skýrsla Rauða krossins á Íslandi fjallar um þau. Svo við rifjum upp hvað um ræðir er hér um að ræða einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi, fengið endanlega synjun en geta einhverra hluta vegna ekki snúið aftur til heimalands síns.

Dómsmálaráðuneytið brást við skýrslu Rauða krossins með því að segja að það væri á valdi einstaklinganna að höggva á þennan hnút, þetta limbó sem þau eru í, þar sem þau eru hvorki hér né þar, með sjálfviljugri heimför og að í nær öllum tilvikum geti umræddir útlendingar einfaldlega farið heim. Þetta lýsir alveg ofboðslega miklu skilningsleysi á stöðu þessa fólks og bendir eiginlega bara til þess að dómsmálaráðuneytið hafi ekki lesið skýrslu Rauða krossins. Það voru tekin viðtöl við 15 einstaklinga af þeim rúmlega 60 sem eru í þessari millibilsstöðu á Íslandi og hér er t.d. einn viðmælandinn sem segir: Ef þau flytja mig til Nígeríu þá dey ég. Þetta er nefnilega á þeim stað. Fólk sækir ekkert um alþjóðlega vernd á Íslandi bara í einhverju gríni heldur vegna þess að það er að flýja eitthvað, einhverja veruleg ógn við líf og limi.

Það að fólk sem er búið að fá endanlega synjun velji að búa við sult og seyru hér á landi frekar en að fara til heimalandsins segir okkur dálítið um stöðuna í heimalandinu. Það er betra að vera fátæk á Íslandi en í hættu í heimalandinu. En þessi svona, ég vil ekki kalla það ómanneskjuleg en þetta eru ómannúðleg viðbrögð frá dómsmálaráðuneytinu og þau skína nefnilega dálítið í gegn hjá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar þar sem hann fjallar um 6. gr. frumvarpsins þar sem er kveðið á um niðurfellingu þjónustu og réttinda 30 dögum eftir að endanleg synjun er fengin í umsókn um alþjóðlega vernd. Þar er einmitt þessi tónn: Geta þau þá ekki bara farið heim? Það er bara alltaf möguleiki fyrir fólk þegar það er búið að fá synjun að fara heim til sín frekar en að búa á götunni á Íslandi.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í umræðum síðustu daga, þar sem stjórnarliðar hafa hver um annan þveran talað í ólíkar áttir um það hvað þurfi að gera með þetta frumvarp ef það fer inn til nefndar milli 2. og 3. umr., eins og þau hafa kallað eftir, hafa sum þeirra bent á þessa skýrslu Rauða krossins sem ákveðinn vendipunkt í afstöðu þeirra til þess hvort málið væri þannig að það þyrfti að laga það. Mig minnir að hv. þm. Jódís Skúladóttir hafi gert þetta að umtalsefni á fyrsta degi 2. umr. málsins, nefnt þessa skýrslu sérstaklega og að það þurfi að bregðast einhvern veginn við þessum hópi. Við því eru náttúrlega einföld svör. Þessi skýrsla barst nefndinni 30. nóvember og tveimur vikum seinna afgreiddi meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar málið úr nefnd án þess að hafa brugðist við þessu.

Hér erum við að tala um breytingar sem hefði verið hægt að gera sem hefðu verið mjög útgjaldalitlar. Það hefði t.d. verið hægt að fara að fordæmi Svía sem viðurkenna tilvist þessa hóps, fólks í umborinni dvöl í sínu útlendingalagaverki, viðurkenna tilvist þess og sjá því fyrir auðveldum leiðum til að fá bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi þannig að fólk geti alla vega unnið og lifað einhverju sem er nálægt því að vera eðlilegt líf í þessu limbóástandi. Þetta hefðu stjórnarliðar getað gert algjörlega vandræðalaust án þess einu sinni að snerta á einhverjum af þeim pólitísku álitaefnum sem mögulega geta verið í kringum þetta. Þessi breyting hefði meira að segja (Forseti hringir.) verið í takt við síðustu greinar frumvarpsins sem snúa akkúrat að (Forseti hringir.) dvalar- og atvinnuleyfinu. En þetta valdi meiri hlutinn gera ekki í desember (Forseti hringir.) og þess vegna kannski engin ástæða til að ætla að þau muni gera eitthvað annað milli 2. og 3. umr.