Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er kominn í lokin á punktunum upp úr umsögn Amnesty International, þar eru rædd helstu atriðin. Þar er fjallað um 13. gr. frumvarpsins, sem eru takmarkanir á fjölskyldusameiningu. Þetta er grundvöllurinn að ákveðnum hluta flóttamannasamningsins, að fólk hafi rétt til fjölskyldusameiningar. Það er ekkert flókið að útskýra það. Eins og lögin eru núna þá uppfylla þau ein skilyrði til fjölskyldusameiningar sem uppfylla líka skilyrði skv. 37. og 39. gr. útlendingalaga. Þannig uppfylla einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd á grundvelli 45. gr. — þetta er flóknara en svo að hægt sé að útskýra það í stuttu máli — ekki skilyrði fyrir frekari fjölskyldusameiningu á grundvelli ákvæðisins. Ekki verður séð hvaða ástæður eða nauðsyn liggur að baki þessari tillögu, auk þess að rík mannúðarsjónarmið skulu liggja að baki því að leyfa sameiningu fjölskyldna í því tilviki að þau hafi fengið alþjóðlega vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laganna.

Þarna er einmitt mögulega um ákveðinn misskilning að ræða. Við vorum með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á fundi nefndarinnar í lok nefndavikunnar í upphafi árs og Flóttamannastofnun sagði: Við skiljum ekki þessa grein. Við vitum ekki hvað þeir eru að reyna að gera þarna. Þetta er eitthvað flókið varðandi það að — sem sagt, þetta er alla vega flókið og umsögnin nær kannski ekki alveg yfir það sem ætlunin er að ná yfir. En það er rosalega óheppilegt að lögin séu ekki skýr. Það gefur stjórnvöldum enn fleiri tæki í rauninni til að túlka lögin eins og þau vilja og beita þeim á einhvern allt annan hátt en ætlun löggjafans var. Og samkvæmt því sem maður hefur heyrt hjá formanni allsherjar- og menntamálanefndar er mögulega ein af breytingartillögunum eitthvað í þá átt að lagfæra texta þessarar greinar eða einfaldlega bara að útskýra það betur með framhaldsnefndaráliti sem á að vera einhvers konar lögskýringargagn. En við höfum alveg séð það áður að lögskýringargögn eru ekki nóg. Greinargerð er ekki nóg. Það er það sem stendur í lögunum sem skiptir máli. Og ef það er einhvern veginn á skjön við það sem er síðan sagt í greinargerð þá skiptir það sem er sagt í greinargerð engu máli. Það er einungis ef það er fótur fyrir því í lagagreininni að útskýra eitthvað sem það gæti hjálpað til.

En í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna má finna þessa meginreglu um einingu fjölskyldunnar. Það er mikilvægt að einstaklingar á flótta geti sameinast fjölskyldum sínum enda getur aðskilnaður þeirra við fjölskyldur sínar reynst þeim afar þungbær, haft neikvæð áhrif á möguleika þeirra til að aðlagast og gerast virkir þátttakendur í samfélaginu.

Þarna var grein sem fjallaði um að ef fólk hefur fengið vernd samkvæmt ákveðnum greinum útlendingalaganna þá eigi það rétt á fjölskyldusameiningu. Og ef þau missa þá vernd, ef hún rennur út eða þau fá hana ekki aftur eða eitthvað svoleiðis, þá missa aðrir, sem gátu fengið fjölskyldusameininguna, þessa vernd líka. En vandinn þar er líka að þeir einstaklingar geta átt sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar. Þó að það hafi bara verið komið inn á fjölskyldusameiningu, sem er í rauninni styttri leið, þá gætu þeir samt verið í þannig aðstæðum, óháð þeim aðila sem fékk upprunalega alþjóðlega vernd, að þeir eru með rétt til alþjóðlegrar verndar sjálfir. Þannig að þó að upprunalegi aðilinn missi alþjóðlega vernd getur verið að þeir haldi henni. En hérna er verið að leggja til að þeir tengist upprunalega aðilum og að það geti verið flókið.

En alla vega, svo maður summi upp þessa umsögn þá leggst Amnesty International alfarið gegn frumvarpinu og hvetur stjórnvöld meira að segja til að draga það til baka. (Forseti hringir.) Við erum bara að kalla eftir því að frumvarpið fari inn í nefnd og sé betur rætt. (Forseti hringir.)

— Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.