Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:22]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég heyrði það sem forseti sagði varðandi umræðurnar, að þær muni dragast á langinn. Forseti hefur vissulega ekki rangt fyrir sér, þessar umræður munu dragast á langinn. En þetta eru samt ekki Píratar með einhvern derring að halda þinginu í gíslingu heldur eru raunverulega lagalegir annmarkar á frumvarpinu sem ég tel að hæstv. dómsmálaráðherra, og ráðuneyti hans, sé ekki búinn að skoða nógu vel. Það eru ýmis atriði sem við Píratar erum búnir að benda á hér í kvöld, m.a. það að frumvarpið samræmist mögulega ekki stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og að það skapi hættulegt fordæmi ef verið er að setja sérreglur um málsmeðferð einstaklinga, mál sem stjórnvöld eru að skera úr um, inn í annan lagabálk en almennu stjórnsýslulögin sem gilda um málið samkvæmt lögum. Það er bara hættuleg þróun þegar kemur að afgreiðslu stjórnvalda á umsóknum. (Forseti hringir.) Ég vil því ítreka að umræður munu halda áfram og ég vona að hæstv. forseti og hæstv. dómsmálaráðherra taki allt til skoðunar sem komið verður á framfæri hér í kvöld.