Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið 61 ræðu en allar nema fyrstu tvær eru fimm mínútur. Mér telst þannig til að það sé ekki mikið í samanburði við margar aðrar umræður sem hafa átt sér stað hér á hinu háa Alþingi. Mér þykir heldur ekki góður bragur á því að virðulegur forseti skuli halda þinginu og þingmönnum í gíslingu fram eftir nóttu. Það er ekki góður bragur á því að jafn mikilvægt mál og hér er til umræðu skuli ekki vera rætt þegar bjart er úti heldur velur forseti að hafa umræðuna á dagskrá seint um kvöld og fram á nótt. Ég veit að það er fullt af fólki úti í samfélaginu sem vill fylgjast með og ég veit að það er fullt af þingmönnum sem vilja líka gjarnan fylgjast með. Það er alls ekki góður bragur á þessu næturbrölti forseta.