Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá tvo þingmenn stjórnarflokkanna sitja hér í hliðarsal og hlusta. Það er kannski einum of mikið að þeir verði við beiðni okkar um að taka þátt í umræðum en það er alla vega gott að þeir hlusti. Þeim til upplýsingar var ég að byrja að fara yfir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt. Ég ákvað að fara í gegnum nokkrar greinar þess samnings að gefnu tilefni, vegna slæmrar meðferðar og brota gagnvart fötluðum einstaklingi, nú síðast í desember síðastliðnum. Ég tel því mikilvægt, bæði fyrir þá sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og eins fyrir alla stjórnarþingmenn, að þau séu vel meðvituð um hvaða skuldbindingar og hvaða réttindi við höfum löggilt í þessum samningi.

Ég var búinn að fara yfir 1. og 3. gr. og nú ætla ég að fara í 4. gr. sáttmálans. Ég held ég fari bara í 1. málsgr. a- og b-lið til að vera ekki sakaður um að vera í málþófi en málsliðirnir eru fimm. 1. málsgr. fer alveg upp í i-lið en ég ætla bara að taka a- og b-lið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin.“

Virðulegi forseti. Hér var á mjög einfaldan hátt verið að segja að við þyrftum að taka tillit til þessa samnings í allri okkar lagagerð og í okkar ákvörðunartöku og að ekki mætti mismuna fötluðu fólki í slíkri vinnu.

Það er athyglisvert að í þessum samningi, í 6. og 7. gr., er sérstaklega tekið á stöðu fatlaðra kvenna annars vegar og fatlaðra barna hins vegar. Í 6. gr., sem fjallar um fatlaðar konur, segir, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.“

Í 7. gr., um fötluð börn, stendur, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.“

Fyrir þau sem hafið verið að hlusta á mig tala um barnasáttmálann má sjá þarna endurtekin orðin „það sem viðkomandi barni er fyrir bestu“.

Virðulegi forseti. Ég virðist hafa klárað tímann minn, hann er ansi fljótur að líða. Kannski er það vegna þess hvað klukkan er orðin margt. Ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá til að halda áfram.