Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að rýna í umsögn Þroskahjálpar um þetta frumvarp og verið að gera það í sambandi við 6. gr. sem ég hef verulega miklar áhyggjur af í þessu frumvarpi. Það hefur oft verið notað sem einhvers konar afsökun fyrir því að svipta fólk allri þjónustu, henda því á götuna, svipta það getunni til að sjá sér farborða — það hefur náttúrlega aldrei haft getu til að sjá sér farborða því að það hefur ekki atvinnuleyfi — svipta það allri framfærslu og neita því um aðgengi að heilbrigðisþjónustu, að það séu nú svo margar undantekningar á þessu að fólk í viðkvæmum hópum muni ekki lenda á götunni hjá okkur. Og einmitt að fólk með fötlun, með viðvarandi stuðningsþarfir og fólk með alvarleg veikindi sem geti ekki nýtt sér almannaþjónustu, sem það á samt ekki einu sinni að hafa aðgang að, lendi ekki í þessari þjónustusviptingu. Þess vegna finnst mér mikilvægt í þessu samhengi að lesa hér upp úr bls. 3 í þessari umsögn frá Þroskahjálp, með leyfi forseta:

„Upp geta komið og upp hafa komið tilvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við „ósýnilega” fötlun, s.s. þroskahömlun og/eða einhverfu sem ekki upplýsist um fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin og/eða úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli viðkomandi. Komi fram gögn sem benda til fötlunar hvílir sú rannsóknarskylda á stjórnvaldi að kanna hvort þau eiga við rök að styðjast og ef svo er, hvaða áhrif það hefur á niðurstöðu í málinu.

Gera verður kröfu um að framlögð gögn og vísbendingar sem gætu bent til fötlunar séu metin af viðurkenndum aðila sem hefur þekkingu og forsendur til að lesa úr og leggja mat á slík gögn og hvaða þýðingu þau hafa.

Í ljósi þeirra mikilsverðu hagsmuna sem eru í húfi er mikilvægt að tryggt sé að fötluðum umsækjendum sé veitt viðeigandi aðlögun, t.d. með tilliti til framkvæmd viðtala, stuðnings og þjónustu. Samtökin telja augljóst að þetta ákvæði samningsins hafi ekki verið uppfyllt þegar fatlaður maður var fluttur til Grikklands tveimur vikum áður en synjun Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála yrði tekin fyrir hjá íslenskum dómstólum. Vegna fötlunar þessa einstaklings telja Landssamtökin Þroskahjálp útilokað að mögulegt sé að veita honum viðeigandi aðlögun án þess að hann sé viðstaddur í dómssal og fái nauðsynlegan og viðeigandi stuðning til að taka þátt í málinu, sem varðar óumdeilanlega afar mikilsverða hagsmuni hans.“ — Þetta fékk hann einmitt ekki að gera eins og sagan sýnir.

Þetta er svo mikilvægur punktur sem kemur hérna fram hjá Þroskahjálp um einstaklinga sem búa við ósýnileg fötlun, þroskahömlun t.d. eða einhverfu, sem ekki upplýsist fyrr en eftir að ákvörðunin hefur verið tekin eða úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli viðkomandi. Ég hef farið yfir að Rauði krossinn hefur bent á það, og núna líka Þroskahjálp, að Útlendingastofnun sinnir ekki þeirri frumkvæðisskyldu sinni að afla þessara upplýsinga sjálf og veitir umsækjendum heldur ekki nægilega tímafresti til þess að afla gagnanna sjálfir. Þessir umsækjendur hafa verið að nota þennan 15 daga kærufrest sem þeir hafa samkvæmt núgildandi lögum til að afla viðeigandi vottorða til að reyna af veikum mætti að sýna fram á að þau eigi víst við fötlun að stríða eða þau séu víst í sérlega viðkvæmum hópi, þau eigi víst að fá áheyrn íslenskra stjórnvalda. Og hvað tekur við þeim? Kærunefndin segir að það sé ekki hennar hlutverk að fara yfir efnislegt mat Útlendingastofnunar á því hvort viðkomandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er einhvern veginn engin leið fyrir flóttafólk að sanna að það eigi skilið stuðning og aðstoð og þar af leiðandi höfum við auðvitað verulegar áhyggjur af því að nákvæmlega það sama, nákvæmlega sama viðmót, muni mæta fólki sem á að henda á götuna, að það sé engin leið fyrir þau að sýna fram á að þau tilheyri þessum viðkvæmu hópum, þ.e. að þau séu með fötlun sem kalli á langvarandi stuðningsþarfir eða þá að þau þjáist af alvarlegum veikindum. Eins og ég kom inn á áðan breytir það því ekki að t.d. fólk sem hefur orðið fyrir kynfæralimlestingum, mansali eða pyndingum fellur ekki einu sinni undir þessar undantekningar.

Ég ætlaði að fjalla aðeins meira um þessa umsögn vegna þess að Þroskahjálp kemur hérna inn á mjög mikilvægan þátt sem er í 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og varðar aðgang að réttindum. Ég sé að ég hef ekki tíma til að fara í þá sálma í þessari ræðu og óska því eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.