Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Já, það hefði nú verið gaman að hafa hér hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra til að ræða við um okkur samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk sem, ef ég man forsetabréf rétt, heyrir undir þann ráðherra. En ég er kominn hér í seinni hluta þessa samnings, því að eins og ég hef sagt við hæstv. forseta þá vil ég ekki vera að eyða tíma í greinar sem hafa ekki beint með þetta mál að gera. En 17. gr. hefur það og ég get glatt hæstv. forseta með því að hún er stutt og góð, en hún fjallar um verndun friðhelgi einstaklingsins. Í henni segir: „Allt fatlað fólk á rétt á virðingu fyrir líkamlegri og andlegri friðhelgi til jafns við aðra.“

Ef virðulegi forseti man hvernig við höfum verið að tala hér þá er einmitt verið að ganga á friðhelgi einstaklingsins í þessu frumvarpi. Það er ekki nóg með að friðhelgi einstaklingsins sé stjórnarskrárvarin heldur, eins og stendur hér í þessari 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk, er hún einnig og ítrekað varin fyrir fatlað fólk.

Við skulum halda áfram þessari yfirferð og það eru því miður ekki margar greinar sem ég get hoppað yfir vegna þess að 18. gr. fjallar um ferðafrelsi og ríkisfang. Í 1. mgr. þessarar greinar er fjallað um ferðafrelsið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til ferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs, meðal annars með því að ábyrgjast að fatlað fólk:

a. hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu eftir geðþótta eða á grundvelli fötlunar,

b. sé ekki, á grundvelli fötlunar, svipt tækifæri til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að nýta sér viðeigandi ferli, svo sem málsmeðferð vegna innflytjendamála, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að greiða fyrir nýtingu réttarins til ferðafrelsis …“

Virðulegi forseti. Þarna er nú verið að tala um innflytjendamál og auðkenningarskjöl. Ef virðulegi forseti rifjar upp ræðu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hér áðan var hún einmitt að fjalla um það hvernig fólk væri stundum svipt þessum skilríkjum.

Ég hafði nú vonast til þess að ná að klára síðustu greinina sem ég ætla að fara yfir í þessum samningi áður en ég fer yfir í næsta samning, en ég sé að ég næ því ekki og óska því eftir við virðulegan forseta að hann bæti mér á mælendaskrá.