Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég var að byrja á því hér áðan að fara yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á útlendingalögum, tók þar upp þráð sem forseti kannast við frá því á síðasta þingfundi. Ég náði ekki að komast langt í þessu þá en næ því vonandi í dag. Fyrsta breytingin sem var gerð á þessum lögum, eins og ég sagði, var gerð rúmri viku áður en lögin tóku gildi þar sem komið var inn bráðabirgðaákvæði varðandi það að kæra fresti ekki réttaráhrifum brottvísunar hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd ef umsókn þeirra er metin bersýnilega tilhæfulaus og viðkomandi kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki. Ekki var einhugur um þessa tillögu hér á þingi en ekki sterk andstaða við hana vegna þess að hún var þröngt römmuð inn í tíma. Frumvarpið byrjaði sem sex mánaða bráðabirgðaákvæði, að mig minnir, en það var tekið niður í þrjá til fjóra mánuði og úr varð að þetta bráðabirgðaákvæði var samþykkt með ágætum meiri hluta, 36 þingmenn greiddu þessu atkvæði sitt en þingmenn Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og nokkrir þingmenn Viðreisnar greiddu ekki atkvæði.

Eftir á að hyggja þá sló þessi breyting kannski dálítið tóninn fyrir allt sem fylgdi á eftir vegna þess að þarna er fyrsta skrefið stigið og það áður en lögin taka gildi. Og þó að það hafi verið ýmislegt sem þurfti að lagfæra, ýmsar villur sem seinna komu í ljós, þá var þarna forgangsverkefni ráðuneytisins að leita til Alþingis með að skerða möguleika fólks á flótta til að leita úrlausnar dómstóla eða kærunefndar þegar þeim þykir niðurstaða Útlendingastofnunar í máli sínu ekki vera rétt.

Eins og við höfum ítrekað komið inn á eru möguleikar fólks á að fylgja eftir áfrýjun eða kæru til kærunefndar töluvert takmarkaðri þegar fólk er komið úr landi. Það skerðir möguleika mjög mikið. Þegar ríkisstjórnin hafði hins vegar tekið við þarna eftir áramótin, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þá leið ekki á löngu þar til hæstv. dómsmálaráðherra, sem þá var Sigríður Á. Andersen, kom með frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 17/2017 til að festa varanlega í sessi þessa skerðingu á möguleikum flóttafólks á að sækja rétt sinn gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Þá spunnust aðeins meiri umræður og fóru að renna á fólk tvær grímur og þetta fór að líta út fyrir að vera byrjunin á neikvæðari nálgun á málaflokkinn en lagt hafði verið upp með í hinni miklu þverpólitísku sáttavinnu sem heildarendurskoðun útlendingalaga byggði á 2016. Það var ekki lengra liðið en fram í mars 2017 þegar fólk fór kannski að átta sig á því að þverpólitísk sátt væri mögulega ekki til staðar á þingi um ýmis álitaefni í þessum málaflokki. Frá þeim degi hefur það kannski einkennt mjög margt sem hefur verið gert í kringum þessi lög en líka mjög margt sem hefði þurft að vera búið að gera en ekki hefur náðst saman um.