Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[18:19]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið og þakka fyrir góða útskýringu á þessu. Varðandi fjármálagerðirnar þá er bara rosalega mikilvægt að því verði kippt strax í liðinn því að þetta er hluti af stærri málum sem við erum að kljást við hér á Íslandi. Það er svolítið mikilvægt, með þeim breytingum sem eru t.d. að eiga sér stað á orkumarkaðnum, að við förum bara að samræma okkar markaði til þess að opna fyrir meira samstarf við önnur lönd. Þess vegna gleður það mig að heyra þetta. Ég vinn svolítið mikið við að greina tilskipanir og reglugerðir og ég skil að þetta er ógeðslega mikið og flókið ferli, það þarf að samræma við lög, núgildandi íslensk lög. Hvað varðar húshitunina og þessa undanþágu sem við fengum þá er vissulega frekar næs að við séum með undanþágu frá þessu en ég tel samt að það sé frekar mikilvægt að innleiða tilskipun af þessu tagi sem kveður á um orkunýtni og er með fast markmið, tölulegt markmið og viðmið sem við ættum að fara eftir og mörg önnur lönd eru líka búin að innleiða þetta í lög hjá sér. Ég held að það myndi bara ýta undir hvata til þess að flýta fyrir orkuskiptunum sem við viljum svo ólm ná og auka metnað okkar þegar kemur að þessum málum. En ég bíð alla vega spennt og ég bind miklar vonir við núverandi hæstv. utanríkisráðherra af því að ég tel að þær breytingar sem hafa verið gerðar hingað til séu bara til hagsbóta.