Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:39]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið og þessar vangaveltur hans. Ríkisendurskoðandi sagði sjálfur í viðtali að hann hefði ekki komið auga atvik þar sem fjármálaráðherra hefði haft nokkra ástæðu til þess að velta fyrir sér hæfi sínu við söluna. Ríkisendurskoðandi fullyrðir þetta. Það er líka óskiljanlegt að þingmaðurinn tali í rauninni um það að eitthvað hefði bara átt að detta upp í fangið á ríkisendurskoðanda þegar hann framkvæmdi margra mánaða rannsókn á viðfangsefninu. Þá hefði hann, eðlilega, orðið einhvers áskynja í ferlinu og við sína rannsókn en hann varð það ekki, hann segir það sjálfur. Hann segir það fyrir nefndinni og hann segir það í viðtölum. Þingmaðurinn segir að ég hafi sagt að lög hafi alls ekkert verið brotin, en það er náttúrlega ekki rétt. Það sem ég sagði í ræðu minni voru nákvæmlega orð ríkisendurskoðanda, að hann hafi ekki orðið þess áskynja við framkvæmd sinnar rannsóknar að lög hefðu verið brotin af hálfu Bankasýslunnar og ráðherra. Það er það sem ég sagði í ræðu minni. Svo fjallaði ég hins vegar um það að lög virðast hafa verið brotin og Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu og það er líka nákvæmlega það sem við höfum sagt allan tímann og ráðherra hefur sagt: Ef menn hafa brotið lög í þessu ferli þá að sjálfsögðu höfum við tækin og tólin til að taka á því. Það verður ekkert liðið að hafa brotið lög við söluaðferðina, enda er verið að taka á því.