Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[19:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég frábið mér samsæriskenningar. Ég er einfaldlega að tala um að orðanna hljóðan í lagabókstafnum leiðir ekki til neinnar annarrar niðurstöðu en þeirrar að ef ráðherra á að forðast hagsmunaárekstra þá á hann einfaldlega að gera grein fyrir þeim. Rannsóknarreglan er skýr. Við kunnum hana öll. Og já, ég hef heyrt fólk segja þetta berum orðum við mig en vill ekki koma fram opinberlega eða setja það skriflega á blað og skila til þingsins. Það er vandamál. Ég get ekki greint frá því, að sjálfsögðu, af því að þá er ég að brjóta trúnað þannig að ég er bara í miklum vanda með þetta. Ég reyni að lesa nákvæmlega það sem stendur í lögum og er vandamál og það er svo auðvelt, orðanna hljóðan þar segir okkur hvert vandamálið er. (Gripið fram í: …dylgjur.) Hvar eru dylgjur, hv. þingmaður? Ég er að lesa upp úr lögunum, orðanna hljóðan segir þetta nákvæmlega:

„Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín.“

Þetta segir skýrt í siðareglum ráðherra. Stjórnsýslulögin eru líka skýr með rannsóknarregluna en einhverra hluta vegna fáum við það ekki skriflegt frá þeim sérfræðingum sem fjalla um þetta mál. Það eru orð sem hafa verið sögð við mig. Ég get ekki greint frá þeim, að sjálfsögðu, af því að þá lendum við í sama vanda og alltaf hérna þannig að við erum föst á þeim stað. Ég er að vonast til þess að fólk sjái þetta bara þegar maður les upp texta laganna og siðareglnanna af því að mér finnst það augljóst. Ég er ekki hræddur við það. Ég er ekki hræddur við að segja það þrátt fyrir að varðhundar valdsins — í alvörunni, fólk, þetta er ekki fyndið. Þetta er ekki fyndið. (Forseti hringir.) Nei, ekki einu sinni smáræðisfyndið. Þetta er virkilega alvarlegt mál. Í alvörunni, (Forseti hringir.) ráðherra kemur og segir: Ég bara vissi ekki að pabbi minn var að kaupa — og fólk kaupir það. Það gengur ekki upp. Við megum ekki vera með þannig samfélag sem segir: (Forseti hringir.) Ó, allt í lagi, haltu bara áfram að selja banka. Frábært. Sjáum hvað gerist næst. Ætli það sé það sama og hefur gerst áður? Þetta er rugl, algjört rugl.