Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Þetta er skemmtileg og áhugaverð umræða en um leið mjög mikilvæg þegar við ræðum um auðlindanýtingu og hvernig hún kemur landi og þjóð sem best. Ég ætla kannski að vera meira á jörðinni heldur en umræðurnar voru hér á undan, á jörðu niðri. Mér finnst þetta samt alltaf betri og betri hugmynd með eignarréttinn að vindinum, búandi á Suðurnesjum, hvort maður geti haft einhverjar tekjur af þessu. En það er nú annað mál.

Þegar við ræðum um auðlindagjald á auðlindanýtingu, eins og við erum að tala um hér, þá er kannski ekki alveg ljóst hvaða auðlind er verið að nýta við raforkuframleiðslu. Þær eru margar. Landið sem þarf fyrir orkuvirkið sjálft er takmörkuð auðlind. Jú, það er vissulega vindur sem kemur að því að stýra því en ég held að hann sé nú minnsta auðlindin. Hér hefur verið talað um að þetta hafi áhrif á vistkerfin. Vistkerfin eru þá á landareign hinna ýmsu aðila þarna í kring. Ég held að við þurfum bara að ræða þetta svolítið heilt yfir. Hvað viljum við sem þjóð? Ætlum við sem þjóð að nýta auðlindina okkar og hafa af því einhvers konar arð eða tekjur til að byggja hér upp velferðarsamfélag? Og hvar er þá best að sækja þennan arð? Í hvaða formi? Er formið beinar peningagreiðslur í gegnum auðlindagjald til ríkissjóðs? Eigum við að taka auðlindagjaldið og skipta því eitthvað? Eigum við að skattleggja eins og hér hefur verið rætt? Eru það sveitarfélögin sem eiga að skattleggja í gegnum fasteignagjöld eða er það ríkið sem á að skattleggja gegnum auðlindagjald eða tekjuskatt? Eigum við að hafa gjöldin þannig að sá sem á landið fái tekjurnar eða eigum við að hafa orkufyrirtækið í opinberri eigu og það borgi sér arð? Eru kennitölur orkufyrirtækis í opinberri eigu besti mælikvarðinn á það hvað þjóðin er að fá fyrir þetta? Þetta eru allt saman mjög stórar og flóknar spurningar.

Ég ætla að staldra aðeins við þetta, kennitölur orkufyrirtækis í opinberri eigu. Nú eru allir voða glaðir af því að Landsvirkjun er að borga metháar fjárhæðir í arð. Þá segja menn: Það er eins gott að ríkið eigi Landsvirkjun og fái þessa peninga til sín. En er þessi arður sem Landsvirkjun er að greiða til ríkissjóðs mestu verðmæti sem íslensk þjóð getur fengið fyrir orkuöflun Landsvirkjunar? Er það virkilega svo? Hvað ef Landsvirkjun hefði verið búin að fjárfesta meira, borga aðeins meira í fjármagnstekjuskatt, taka aðeins meiri áhættu í frekari virkjunum og væri að framleiða hér umtalsvert meiri raforku í dag, af því að það er orkukrísa í heiminum, og hefði þar af leiðandi verið skuldsettari, þurft að borga meiri fjármagnskostnað og ekki náð að borga þennan arð? Á móti kemur að hér væri meiri raforkuframleiðsla, meiri erlendar tekjur, fleiri störf byggð á orkuvinnslu, sem geta verið græn störf eins og landeldi í fiskeldi, förgun kolefnis, það getur verið gagnaver, það getur verið ýmislegt. Er hugsanlegt að verðmæti til velferðarsköpunar á Íslandi gætu verið meiri en þeir 15 milljarðar sem Landsvirkjun er að fara að borga í arð núna ef þetta hefði verið svona? Við þurfum að hafa þetta allt í huga.

Við þurfum líka að hafa í huga hvar við erum að taka gjöldin og hvaða áhrif þau gjöld sem við tökum hafa. Þegar við ræðum t.d. auðlindagjald og skatttekjur þá megum við ekki gleyma því að það hefur áhrif á rekstrarhæfni fyrirtækjanna sem eru að nýta auðlindina og búa til verðmæti, það hefur áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar. Og hvaða áhrif eru það sem þetta hefur á fyrirtækin sjálf? Jú, þau hafa minna fjármagn til nýsköpunar og þróunar.

Þá skulum við aðeins fara í sjávarútveginn af því að við höfum mestu reynsluna og þekkinguna þaðan. Það er tvennt sem ég vil benda á þar. Sjávarútvegurinn hefur nýtt sinn umframhagnað af nýtingu auðlindarinnar, í hvað? Í nýsköpun og þróun, til þess að búa til meiri verðmæti og fleiri störf og meiri útflutningstekjur fyrir íslenska þjóð, miklu betri velsæld. Ég þori að fullyrða það hér að mesta nýsköpunin á Íslandi, flest störf, mesta verðmætaaukningin er í sjávarútvegi. Það er verið að fullvinna sjávaraflann, það er verið að fara betur með auðlindina, það er verið að endurnýja skipin þannig að þau séu umhverfisvænni og svona mætti lengi telja. Þetta hefði ekki verið hægt ef allur arðurinn af nýtingu auðlindarinnar hefði verið tekinn í ríkissjóð.

Svo er annað sem við verðum að hafa í huga. Við erum að taka auðlindagjald af útgerðinni og því hærra sem það veiðileyfagjald er, því minni tekjuskatturinn, því minna sem auðlindagjaldið er því hærri tekjuskattur. Það er alltaf sama tala, það er bara mismunandi lykill í bókhaldinu. Við skulum ekki gleyma því.

Svo er annað sem ég ætla að koma inn á hér að lokum og við þurfum að hafa í huga. Það er að það þarf uppbyggingu, það þarf fórnir, það þarf áhættutöku og ýmislegt til þess að geta nýtt auðlindirnar og fá þessar tekjur á endanum í ríkissjóð á einn eða annan hátt fyrir þjóðina. Þá er það oftast nærsamfélagið sem ber hvað mestan hita og þunga af því. Ég bý í sveitarfélagi og er þar skattgreiðandi og ber þar af leiðandi ábyrgð á uppbyggingu hafnarmannvirkja þar sem er landað aflaverðmætum fyrir tugmilljarða á ári. Þar er hægt að landa þessum aflaverðmætum nálægt miðunum á umhverfisvænan hátt, á hagkvæman hátt þannig að það skapi sem mestar tekjur fyrir íslenska þjóð til útflutnings. Þetta er síðan flutt út úr annarri höfn, það er ekki hægt að flytja það út úr þessari höfn. Þær útgerðir sem eru staddar í þessu bæjarfélagi og bera ábyrgð á skuldsetningu Grindavíkurhafnar borga yfir 400 milljónir á ári í auðlindagjald. Ekki króna af þessu auðlindagjaldi kemur til sveitarfélagsins Grindavíkur sem er skuldsett út af þessu. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við erum að tala um auðlindagjöld. Við verðum að hafa þetta í huga.

Ég vil því benda á umræðu sem er núna hjá orkusveitarfélögunum sem benda á að orkuvirki eru ekki að borga full fasteignagjöld. Það er búið að skerða fasteignagjöldin hjá þeim umfram allar aðrar atvinnugreinar — aðrar ríkisstofnanir borga meiri fasteignagjöld, eins og hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavíkurborg fær fullt af fasteignagjöldum af opinberum eignum — en þeir eru líka skertir í jöfnunarsjóðnum. Þannig að það eru tvær skerðingar á þessum tveimur tekjustofnum. Þetta getur ekki gengið. Þegar við erum að ræða um að taka einhverja hlutdeild af orkuframleiðslunni þá er það nærsamfélagið, hvort sem það er sveitarfélagið eða landshlutinn, sem þarf jú að breyta skipulaginu og þarf að þola nærveru orkuvirkisins eða njóta, eftir því hvernig það er. Það þarf að taka alla umræðuna. Vistkerfið er þar, það er ekki hér við Austurvöll, vistkerfið er í nágrenninu þar. Þannig að ég held að það skipti mjög miklu máli að við finnum lausn sem miðar að því að af þeirri hlutdeild sem við ætlum að taka þá verði sem mest að fara í nærsamfélagið til uppbyggingar þannig að við séum að nýta takmörkuð gæði þeirra sem búa á þessu svæði og það nýtist til uppbyggingar velferðarkerfis á því svæði og rannsókna og þróunar, mótvægisaðgerða og annars. Það er mikilvægt. Við þurfum líka að hafa í huga hve miklar álögur við höfum upp á það að orkureikningur okkar landsmanna hækki ekki út af þessum álögum og líka að samkeppnishæfni þjóðarinnar skerðist ekki þannig að við getum búið til sem mest verðmæti sem skapa sem flest störf og mestu útflutningstekjur þannig að við getum byggt upp hér góða innviði og öflugt heilbrigðiskerfi og aðrar velferðarstoðir samfélagsins.