153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

loftslagsgjöld á millilandaflug.

[15:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en að svo virðist sem regluverkið eins og það lítur út núna sé óásættanlegt, þ.e. algerlega óviðunandi fyrir íslenskar aðstæður, og við verðum að hafna því þá sem slíku. Svo verður það eflaust matskennt hvenær viðunandi aðlögun hefur fengist. Ef ég þekki stjórnmálamenn rétt þá munu þeir geta tekist á um það líka.

Það er annað í þessu sem ég held að við þurfum aðeins að hugleiða en það er að við getum haft fullan sigur í þessu og bara sagt nei og tekið afleiðingunum af því í þessu EES-samstarfi, hverjar sem þær kunna að verða á endanum. En það er ekkert víst að það bjargi alþjóðafluginu á Íslandi. Það er ekkert víst að það sé einhver lausn sem íslensku flugfélögin geta á endanum lifað með, að það séu einhverjir aðilar innan EES-samstarfsins sem ætli ekki að taka þátt og þá verði þeir mögulega að sæta kostum af hálfu þeirra sem ætla að vera innan girðingar í svona málum sem þeir hafa ekkert samtal um þegar upp er staðið.(Forseti hringir.)

Maður spyr sig auðvitað líka hvaða regluverk Evrópusambandið ætlar að taka upp gagnvart þriðju ríkjum, (Forseti hringir.) þ.e. öðrum en þeim sem eru inni á EES-svæðinu.