Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sína ræðu og svo þessa ágætu aðgerðaáætlun sem hann mælir hér fyrir. Ég held að það sé margt í þessu plaggi sem geti þjónað ágætlega sem leiðarvísir í geðheilbrigðismálum næstu ár. En svo er kannski annað sem ég held að mætti gera betur og skýra betur og mun fjalla um í ræðu hér á eftir. Í aðgerð 4.A.3, sem var sett inn eftir athugasemdir sem komu fram þegar þetta mál var í samráðsgáttinni, er fjallað um eflingu sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, sem er vel því ég hef áhyggjur af því t.d. að það hafi komið ákveðið bakslag í þróun þessarar þjónustu síðastliðið ár hjá stærsta þjónustuveitandanum, sem er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins. Þar gerðist það í fyrra að staða fagstjóra sálfræðinga var lögð niður en viðkomandi hafði m.a. það hlutverk að tryggja handleiðslu til sálfræðinga og samræma verklag og annað. Fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu telur að þetta hafi bitnað mjög illa á samþættingu þessarar þjónustu og að starf og starfsumhverfi sálfræðinga hjá heilsugæslunni hafi beðið hnekki, enda hafi í kjölfarið margir sálfræðingar sagt upp störfum, illa gengið að ráða í lausar stöður og biðlistar þar af leiðandi lengst og biðtími aukist. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra með vísan til yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans og skyldna gagnvart sínum undirstofnunum og í ljósi þeirra markmiða sem eru sett fram í þessari aðgerðaáætlun og í ljósi þess að ég veit að Fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu hefur einmitt leitað til ráðuneytisins vegna þessa máls: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að ráða bót á þessu ástandi og tryggja að það sé hægt að efla enn frekar þessa þjónustu eins og stefnt er að samkvæmt þessari aðgerðaáætlun?