Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:30]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Dómsmálaráðherra braut gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Það er svo einfalt. Dómsmálaráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að það hafi verið hans ákvörðun og á hans ábyrgð að koma í veg fyrir afhendingu gagna frá stjórnvaldi, þvert á það sem þingskapalög kveða á um. En þar segir, eins og hefur komið fram, að stjórnvaldi beri að skila gögnum til fastanefnda Alþingis innan gefins tímafrests svo að þingið geti sinnt hlutverki sínu. Dómsmálaráðherra hefur með þessu brotið gegn þingskapalögum. Ætlum við að taka þessu með léttúð og setja fordæmi um að það sé í lagi að gera þetta? Á hvaða vegferð erum við þá komin, forseti? Er það virkilega fordæmi sem við viljum setja? Dómsmálaráðherra hefur farið út fyrir sitt svið og brotið gegn þingskapalögum. Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar og ráðherra má ekki láta eigin geðþótta ráða þar för.

Forseti. Ég vona að hv. þingmenn átti sig á því hvaða fordæmi er verið að setja hér í dag.