Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál sem hér er fyrir framan okkur snýst um valdmörk, snýst um það hversu langt ráðherra má ganga og það snýst um rétt Alþingis til þess að vinna vinnuna sína. Það er rétt, sem hefur komið fram hjá hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar, að það kastaðist í kekki á milli nefndarinnar, ráðuneytisins og Útlendingastofnunar. Allsherjar- og menntamálanefnd, öll nefndin, brást við því með því að biðja um gögn með vísan í þingsköp Alþingis. Það er gefinn sjö daga frestur í þeim lögum. Allsherjar- og menntamálanefnd gaf lengri frest vegna þess að nefndin var sammála því að hún þyrfti gögnin og ætti rétt á þeim til þess að setja lögin. Gögnin bárust ekki innan þessa frests; ítrekað og aftur og aftur. Það breytti því hvernig lögin litu út. Það voru vissulega sett lög en það voru öðruvísi lög en hefðu annars verið sett. Hæstv. dómsmálaráðherra kom í veg fyrir það að þingið gæti unnið sína vinnu, (Forseti hringir.) sett lög með þeim hætti sem á að gera. Slíkur ráðherra getur ekki setið í ríkisstjórn Íslands.