Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:21]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Án þess að ég ætli að fara að svara fyrir stöðu einstakra sveitarfélaga vil ég segja að ég var í einhverjum umræðum um þetta í gær og heyrði tölur um að Reykjavíkurborg hefði verið með áætlun um að vera rekin með tapi upp á 3–4 milljarða í ár. Eftir hálft ár hefðu þeir verið 9–10 milljarðar og enduðu sennilega í 15 og þess vegna hefði verið gripið til aðgerða af hálfu meiri hlutans sem eiga að ég held á þremur árum að snúa við þessum hallarekstri.

Staðan er auðvitað þannig að við erum með eftirlitsnefnd sveitarfélaga til að takast á við það. Þó svo að fjármálareglur sveitarfélaga, alveg eins og ríkisins, hafi verið teknar úr gildi, eða sem sagt til loka árs 2025, þá fékk ég eða samþykkti eða bað um að eftirlitsnefndir myndu engu að síður senda öllum sveitarfélögunum bréf þegar þau væru að fara yfir viðmið, bara eins og er eðlilegt, þó að bréfin séu kannski ekki með sama hætti og ef þetta væru lögboðin viðmið, bara til að láta þau vita ef menn væru ekki með. Reykjavíkurborg var eitt þessara 21 sveitarfélaga.

Staðan er auðvitað erfiðari hjá mörgum sveitarfélögum. Ég hef líka heyrt það nýlega að meira að segja Garðabær, sem hefur yfirleitt státað af nokkuð myndarlegum rekstri, sé með neikvætt veltufé frá rekstri. Þannig að staða sveitarfélaganna er erfið. Það sem er jákvætt að sjá í fjármálaáætluninni næstu fimm ár er að staða þeirra er smátt og smátt að lagast í heild sinni og þá er þetta stóra sveitarfélag auðvitað inni líka sem segir okkur að fjármál þess eigi að vera komin í jafnvægi eftir fimm ár. En ég geri ekki lítið út alvarleika þess að vera í miklum fjármálalegum örðugleikum eins og augljóslega virðist vera staðan t.d. hjá Reykjavíkurborg.