Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:47]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Undanfarin ár hefur umferð vaxið jafnt og þétt um landið allt með tilheyrandi álagi á samgönguinnviði og umferðin vaxið með fjölgun ferðamanna. Henni fylgir aukin mengun, svo sem í formi svifryksmengunar af völdum dekkjaslits, þótt vissulega séum við á réttri leið með fjölgun rafbíla og er það vel. Með eflingu almenningssamgangna má stemma stigu við mengun sem hlýst af vegsliti sem í senn eykur loftgæði í þéttbýli þar sem færri ökutæki er á ferðinni hverju sinni. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins og borgarlínuverkefnið er lykilþáttur í því að ná fram breytingum á ferðahegðun í þágu umhverfisins. Í fjármálaáætluninni er fjallað um að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann. Sömuleiðis er fjallað um endurskoðun og framlengingu á samningi ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna í samræmi við viljayfirlýsingu þar um sem undirrituð var samhliða samgöngusáttmála. Í fjármálaáætluninni eru einnig viðraðar þær hugmyndir að fjármagna framkvæmdir vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með fjármagni sem kynni að hljótast af svokölluðum flýti- og umferðargjöldum en þar segir að unnið verði að því, með leyfi forseta, að skilgreina með skýrari hætti en gert hefur verið framkvæmdaumfang, kostnað, fjármögnun og forgangsröðun þeirra verkefna sem undir sáttmálann falla.

Í þessu samhengi vil ég spyrja hæstv. innviðaráðherra hvernig megi skilja þessar hugmyndir og hvað hann sjái fyrir sér í þessum efnum, hvort komi til álita að flýta ákveðnum framkvæmdum vegna borgarlínunnar. Sömuleiðis vil ég spyrja hvað felist í umræddri endurskoðun samnings á milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.