Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég verð að endurtaka spurningu mína: Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við því að markaðurinn er á leiðinni í frost? Ef viðbrögðin eru engin er verið að hlaða upp í næstu fasteignabólu. Með því að tala um viðbrögð við því að markaðurinn sé á leið í frost erum við ekki að tala um að fara í slagsmál við Seðlabankann heldur einmitt að horfa til lengri tíma. Ungt fólk í dag tapar mest á þessu ástandi, verð á 120 m² íbúð í dag á höfuðborgarsvæðinu jafngildir 13 árstekjum einstaklinga að meðaltali og vaxtahækkanir 12 sinnum í röð hafa þær afleiðingar að byggingarbransinn er á leiðinni í frost og eftirspurnin er að hverfa.

Auðvitað er það rétt að það er markmiðið að kæla en þegar kælingin beinist að afmörkuðum hópi samfélagsins og viðbragðið er ekkert til lengri tíma litið eða ekki nægilega mikið — og ég er ekki að segja að svo sé, ég er að spyrja ráðherrann að því hvert það sé, því við sjáum það núna að næstu árgangar komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn, og ef viðbragðið vantar þá verður þetta staðan til lengri tíma, af því að síðan þegar aðstæður breytast til hins betra hvað varðar möguleika fólks til að kaupa þá verða engar fasteignir. Og hvað gerist þá? Verðið fer upp. Þannig að ég er að kalla eftir því, og ekki í neinum ásökunartón heldur einfaldlega: Hvert er viðbragð stjórnvalda við þessu til lengri tíma litið? Því við sjáum hverjar afleiðingarnar eru af vaxtahækkununum, annars vegar á möguleika fólks til að kaupa og hins vegar á það hvernig markaðurinn sjálfur er að bregðast við. Þegar við komum út úr þessu ástandi núna verður veruleikinn þá sá að hér hefur lítið sem ekkert verið byggt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé almenna markaðnum um megn að leysa þetta til lengri tíma einn. Þegar ég talaði um átaksverkefni og tíu árin þá finnst mér tíu ára kafli ekkert sérstaklega langur í samhengi hlutanna. Þess vegna talaði ég um átak. Ég held að það þyrfti eitthvert kerfi af hálfu hins opinbera sem einfaldlega tekur á þeirri þörf á húsnæðismarkaði sem skapast á hverju ári en ég sakna þess að fá ekki svör við spurningu minni.