Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er nefnilega mikilvægt að fólk átti sig á því að það er ekki verið að ræða þetta í mjög langri framtíð. Það er það sem mér finnst gott að við drögum hér fram vegna þess sem ég sagði um að á tyllidögum sé verið að tala um þetta. Það hefur auðvitað verið rætt um þessi mál í svo mörg ár og við heyrum að margir innan skólakerfisins eru þreyttir á að bíða eftir framkvæmdum og þess vegna tel ég mikilvægt að við drögum það fram að þetta standi til bara núna, innan tíma sem við getum séð fram undan, ekki innan margra ára. Ég verð nú að segja það hérna af því að mér barst til eyrna að það standi til að sameina Verkmenntaskólanum á Akureyri, sem er starfsmenntaskóli eins og við þekkjum, og Menntaskólann á Akureyri, sem er bóknámsskóli, að ég velti fyrir mér hvort það er að frumkvæði ráðuneytisins og hvort það sé skynsamlegt eða yfirleitt þörf fyrir í sjálfu sér. Þetta eru mjög ólíkir skólar og það er, eins og ráðherra kom inn á, gert ráð fyrir því að bæta stöðu starfsmenntaskóla, það hefur t.d. verið krafa VMA í mjög langan tíma. Þetta kom mér dálítið á óvart. Ég hef ekkert á móti því að við sameinum stofnanir og tel að það sé víða mjög hagkvæmt og skynsamlegt að gera. En þetta var eitthvað sem ég vissi ekki af og tel að það sé eitt af því sem kannski þurfi líka samfélagslega umræðu.

En að öðru sem varðar starfsnámið yfirleitt, það er vinnustaðanámssjóður. Ríkisstjórnin gaf fyrirheit um það í tengslum við kjarasamninga 2022 að endurskoða fjármögnun hans við gerð þessarar fjármálaáætlunar til að gera starfsnámi enn þá hærra undir höfði, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Tilgangur löggjafar um vinnustaðanámssjóð er að auðvelda nemendum að ljúka tilskildu námi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanámi og auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka nemendur á náms- eða starfsþjálfunarsamning.“

Mig langar mig að spyrja ráðherrann hvort hann telji að sjóðurinn sé nægjanlega vel fjármagnaður og hvað líði því sem hér er drepið á í fjármálaáætlun, endurskoðun á umgjörð og úthlutunarreglum sjóðsins. Ég held að við séum sammála um að það er gríðarlega mikilvægt að atvinnulífið sé í færum til þess að taka á móti nemendum og við vitum alveg að þörfin fyrir að fjölga starfsþjálfunarplássum er gríðarlega mikil.