Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögðin. Þau gefa mér vonir um að farið verði af þessari braut umsókna í samkeppnissjóði í verkefni er lúta að samfélagsuppbyggingu í sveitarfélögunum, sem sannarlega þarf að ráðast í vegna atvinnuuppbyggingarinnar sem þar á sér stað en ekki síður og kannski fremur þegar um er að ræða lögbundin verkefni og vísindarannsóknir. Nú kemur fram í fjármálaáætluninni vilji hæstv. ráðherra til að efla mjög rannsóknir á sviði lagareldis og einnig hafrannsóknir almennt. Ég vil nota tækifærið til að taka undir nauðsyn þess að þær rannsóknir séu vel fjármagnaðar, vegna þess að eins og við vitum skila þær sér með svo margvíslegum hætti inn í atvinnulífið og inn í verðmætasköpunina þegar til lengdar lætur og eru að sjálfsögðu einnig grundvöllur þess að hér sé hægt að starfrækja atvinnugreinar sem standast samjöfnuð við sömu atvinnugreinar í öðrum löndum. Þó að við kannski deilum um útfærslurnar og ákveðnar hliðar, bæði á sjávarútveginum og síðan á eldinu, þá held ég að við höfum öll mikinn metnað fyrir hönd atvinnugreinanna og metnað fyrir þeim tækifærum sem þau þó geta fært okkur, að því gefnu að alltaf sé hugað að faglegum sjónarmiðum og öllum þeim sjónarmiðum sem lúta að umhverfisrétti og umhverfisvernd. Þá er ekki síst nauðsynlegt að byggja á vísindarannsóknum sem segja okkur hver staðan er í hvert sinn.