Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:44]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. En varðandi Hafró held ég að það verði bara einfaldlega að horfa á niðurstöðuna. Niðurstaðan er sú með nánast allar tegundir sem hafa farið undir þessa stjórn, aflamarkshlutdeild, að aflinn hefur minnkað en ekki aukist eins og ætlunin var. Þetta eru bara tölulegar staðreyndir og fólk verður að horfast í augu við það. Hvað varðar framtíðarsýnina sem kemur þarna fram í skýrslunni — og það er rétt að taka það fram að ég heyrði í ágætum liðsmanni Vinstri grænna sem vildi einmitt að það yrði tekið á framtíðarsýninni hér í umræðunni í dag — þá skortir svolítið á hana. Það er auðvitað þannig að það skortir á gagnsæi. Fólkið í landinu vill ræða um það hvers vegna fjármunir eru að safnast upp í skattaskjólum, í svokölluðum gervisölufélögum í skattaskjólum. Fólkið vill ræða jafnræði, ekki út frá því hvort það séu konur og karlar heldur bara hvernig allir landsmenn geta staðið jafnir að nýtingu auðlindarinnar. Það er algjörlega horft fram hjá því og ég sakna þess og það væri svolítið áhugavert að fá sjónarmið ráðherra í þessu máli. Þetta sem kemur hér fram er kannski ekki alveg í samræmi við það ákall sem kemur frá hennar flokksmönnum og almenningi í landinu um breytingar í átt að jafnræði. Menn tala hér um alþjóðlega samkeppni. Hver er hún, hæstv. ráðherra? Það er auðvitað ekki þannig að þessi ágætu fyrirtæki standi í mikilli alþjóðlegri samkeppni. Það kemur fram í skýrslunni sem Auðlindin okkar hefur skilað af sér að það er einfaldlega ekki þekkt neitt vörumerki heldur eru íslenskar sjávarafurðir meira og minna seldar á hrávörumarkaði. Það er ekkert vörumerki sem er í beinni samkeppni, alla vega ef marka má bráðabirgðaskýrslu ráðherra. Ég sakna þess að það sé ekki meiri metnaður í að koma (Forseti hringir.) í þessari ágætu áætlun fram jákvæðri framtíðarsýn fyrir samfélagið.