Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni langar mig að fjalla aðeins um landbúnað, hoppa frá sjávarútveginum sem við vorum að tala um en fara svo aftur í sjávarútveginn í seinni ræðu, kannski bara til að rugla hæstv. ráðherra aðeins. Þegar litið er á landbúnaðarkaflann í fjármálaáætluninni þá má sjá að samdráttur er í útgjöldum tengdum landbúnaði. Þar kemur fram að 360 millj. kr. lækkun muni eiga sér stað í tengslum við búvörusamninga. Á sama tíma er líka verið að setja ansi háleit markmið hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við hver staðan er núna. Á síðasta ári voru þau um 3%. Á þessu ári er markmiðið 3% en árið 2028, í lok tímabilsins, er markmiðið 38%. Svo að ég noti nú orð hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þá er náttúrlega mjög ánægjulegt ef hægt er að ná þessu markmiði algerlega ókeypis, og ekki bara ókeypis heldur líka þrátt fyrir niðurskurð til bænda. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún telur sig geta náð þessum markmiðum um 38%, á sama tíma og verið er að skera niður fjármagn til bænda um 360 milljónir.