Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:51]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er ekki að vanmeta mikilvægi öflugrar utanríkisþjónustu. Ég held að það sé hins vegar dálítið þungbært þeim sem ná ekki endum saman eftir heila starfsævi á Íslandi, að undangengnum hruni, 120% verðbólgu, 10 eða 12% eða hvað það nú er, afborgun af íbúðum sem hækka kannski um 150.000 kall, að fletta í gegnum þá kostnaðarliði sem við erum að inna af hendi. Það er alls ekki fjandsamleg tillaga og ég held að það væri ekkert að því og mjög gott verkefni að fara í fyrir okkur hér á Íslandi — hér eru búnir að vera 63 harðduglegir þingmenn áratugum saman að skrifa ný og ný frumvörp, ný lög, nýja og nýja gjaldaliði sem hengjast um hálsinn á okkur og í tæplega 30 ár til viðbótar hafa verið um 700 virðulegir þingmenn í Evrópu með 30.000 manna lið embættismanna sem skrifar og skrifar án þess að hafa nokkurn tímann komið hingað eða áttað sig á sérstöðu okkar við endimörk hins byggilega heims. Ég hef sagt þetta áður en ég segi það aftur: Við ættum að sammælast um það að horfast í augu við eldri kynslóðir landsins, sem hafa ekki nóg að bíta og brenna, og fara í þá vegferð að skoða hvað af öllum þessum innleiðingum frá Brussel, 650 á hverju ári, og svo allir þeir tugir sem við sjálf erum að búa til á hverju ári, mætti missa sín. Hvar getum við tekið skurðarhnífinn og lækkað útgerðarkostnaðinn, til þess að geta verið fullsæmd af því samfélagi sem við búum bæði eldra fólkinu og hinu yngra? Er hæstv. ráðherra sammála þessari hugmynd?