Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er mjög ánægður að hv. þingmaður lætur sig þennan málaflokk varða og hann veit að það sem við erum að gera er nokkuð sem hefur ekki verið gert áður. Loftslagsráð hefur t.d. bent á það réttilega að útfærslan með aðgerðaáætluninni þurfi að vera nákvæmari, hún þurfi að vera með betri mælikvörðum og fólk geti þá fylgst með því og náttúrlega stjórnvöld að við náum þeim markmiðum sem lagt er upp með. Þegar heimurinn fór í þessa vegferð voru ekki neinar leiðbeiningar um það hvernig ætti að gera þetta og svo sannarlega voru þær ekki til staðar þegar við hófum þetta kjörtímabil og ekki kjörtímabilin sem voru á undan heldur. Þannig að hvað erum við að gera til að ná þessu? Í fyrsta lagi erum við að uppfæra aðgerðaáætlunina. Til að uppfæra aðgerðaáætlunina verður að vera með grunngögnin eins góð og mögulegt er. Til þess að hafa þau eins góð og mögulegt er þá verður að vinna með þeim aðilum, sem eru í rauninni öll þjóðin og ekki síst atvinnulífið, sem þurfa að framkvæma þetta. Til þess að ná markmiðunum þarf líka að vinna í hlutum eins og hringrásarhagkerfinu þar sem eru gríðarleg sóknarfæri vegna þess að hagkerfið er að 90% til línulegt. Úrgangsmálin er t.d. hlutur sem við þurfum að gera miklu betur í. Þegar við erum að tala um þessa beinu ábyrgð Íslands þá er það jarðefnaeldsneytið og aðallega þá í samgöngum. Svo sannarlega eru jarðvarmavirkjanirnar líka og fleira þar inni, það er landbúnaðurinn fyrir utan skógrækt og landgræðslu, það eru úrgangsmálin og það eru efni eins og F-gös og annað slíkt. Og á öllum þessum sviðum, af því hv. þingmaður spyr hvernig eigi að gera þetta, (Forseti hringir.) verður að gera áætlanir eins nákvæmar og hægt er með þeim aðilum sem þekkja best til og ætla að framkvæma þetta til að ná settu marki.