Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að glugga í þessi markmið sem heyra undir hæstv. ráðherra og langaði til að halda mig við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir Ísland árið 2040. Það geri ég vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að af þeim málum sem við erum að ræða hér í þingsal í dag, næstu vikur og næstu mánuði, auk ríkisfjármálanna í samhengi við stöðu fólksins í landinu og heilbrigðismálanna, séu loftslagsmálin mikilvægasti málaflokkurinn sem stjórnvöld eru að fást við. Við höfum áður átt í samtali um þetta atriði, að það er eitt að setja sér markmið og svo er annað hvernig við ætlum að ná þeim fram. Við höfum saknað þess að sjá ekki að markmiðin séu brotin niður, að þau séu betur tímasett, að það sé verið að setja fram aðgerðir sem eru mælanlegar, að þær séu kostnaðargreindar og fjármagnaðar. Ég sé í fljótu bragði ekki að sú mynd sé að breytast dramatískt í þessari fjármálaáætlun og myndi kannski í því samhengi minna hæstv. ráðherra á að ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hans í febrúarmánuði um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi, hvað felist í því markmiði nánar tiltekið, hvaða losun falli þar undir o.s.frv. Ég myndi gjarnan vilja fá svör við þeim. Ég ætla að láta það duga um þetta og myndi þá bara spyrja hæstv. ráðherra í kjölfarið: Hvaða aðgerðir sér hann fyrir sér í sínu ráðuneyti til þess að styðja við höfuðmarkmið fjármálaáætlunar núna sem er að stemma stigu við verðbólgu? Til hvaða hagræðingaraðgerða er hann sjálfur að grípa til í sínu ráðuneyti til þess að ná fram verðbólgumarkmiðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans?