Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisinnlegg. Til að fara í framsetninguna á loftslagsframlögum þá er hugsunin einfaldlega þessi: Þú ert með bíl sem er rafbíll og hann er dýrari en bíll á jarðefnaeldsneyti. Þá kemur þetta í raun á sama stað niður. Það hefur ekkert að gera með umræðuna um það að það sé hægt að skatta bara meira og ef þú ert ekki með skattana í botni þá sé skattafsláttur, heldur að þú tekur ákveðna tegund, í þessu tilfelli rafbílana, og veitir ívilnun upp á X upphæð, segjum bara 200.000 á bíl, eða veitir styrkinn. Það kemur á sama stað niður. Þú færð þetta ekki nema kaupa rafbíl.

Hv. þingmaður spyr: Hvað erum við að fá fyrir? Einu sinni notuðum við ekki hugtakið loftslagsmál þegar við vorum að vinna að þeim, eins og þegar við fórum í orkuskipti eitt og tvö. Hvað fengum við fyrir hitaveituvæðinguna? Við hefðum alveg getað haldið áfram í kolum og gasi, olíu. Hvað fékk minn gamli heimabær, Borgarnes, fyrir það að fara í hitaveituvæðingu? Ég man þegar tankurinn var tekinn. Við getum líka farið í Reykjavík og Ólafsfjörð sem gerði þetta á fyrri hluta síðustu aldar eða um miðbik síðustu aldar. Hvað fengum við fyrir það? Voru það mistök að vera með græna, endurnýjanlega íslenska orku? Ég hef ekki heyrt einn einasta mann sem telur að orkuskipti eitt og tvö hafi verið mistök, sem var náttúrlega gríðarlega stórt loftslagsverkefni. Það væri ágætt að vita, bara svo ég átti mig á því hvar hv. þingmaður stendur: Telur hv. þingmaður að þessi dýra aðgerð, sem er miklu dýrari en verkefnið sem var farið í núna, miklu miklu dýrari, hafi verið mistök? Voru mistök að fara að nýta endurnýjanlegan íslenska orku? (Forseti hringir.) Áttum við að halda okkur við innflutta jarðefnaeldsneytið?