Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:38]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætlaði að fá að nota tíma minn annars vegar til að spyrjast fyrir um fjölmiðla og hins vegar um efnahagsmálin í aðeins stærra samhengi og þá út frá því sem við gefum ekki nægilega mikinn gaum, þegar við erum að tala um fjárhag ríkisins, þ.e. hvað íslenska ríkið er að borga mikið í vaxtagjöld á hverju einasta ári. Þetta er annar eða þriðji útgjaldamesti liðurinn hjá okkur á ári hverju, eitthvað um 90 til 100 milljarðar á ári. Í dag var hæstv. ráðherra að svara hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um vexti og nefndi það að vaxtakjör ríkissjóðs Íslands ættu að vera lægri og tiltók ástæður fyrir því, sem eru auðvitað bara svona gamlar ástæður sem við þekkjum vel, þ.e. lítið atvinnuleysi, skuldir ríkissjóðs eru ekki miklar í alþjóðlegum samanburði, sjálfbært hagkerfi og allt þetta. Þær aðstæður hafa verið til staðar mjög lengi en engu að síður eru vaxtakjörin sem við fáum mjög slæm.

Mig langar þá að spyrja: Hvað er hægt að gera til að lækka þetta? Ég heyri á hæstv. ráðherra að hann telur að það gerist sjálfkrafa. Ég er ekki viss um það ef við skoðum söguna eða einhver ár aftur í tímann. Ég myndi gjarnan vilja nefna þetta og kannski ekki síst vegna þess að menn hafa verið að tala um þennan mikla tekjuauka sem dottið hefur inn í ríkissjóð en hann hefur ekki markvisst verið nýttur til að greiða niður skuldir til að lækka þá vaxtakjörin.

Mig langar líka að spyrja aðeins um það sem hér kom fram áðan varðandi bankaskattinn. Nú er ég ekkert endilega að tala fyrir því að það eigi að hækka bankaskatt en þetta vekur hugrenningatengsl við ummæli hæstv. ráðherra um að hvalrekaskattur, annars vegar á fjármálafyrirtæki og hins vegar á útgerðarfyrirtæki, gæti verið heppilegur. Þessi hvalrekaskattur er hvergi. Það eru mjög óljós fyrirheit um það að mögulega verði veiðigjöld hækkuð og við þekkjum að það getur verið mikil tregða í því. Staðreyndin er hins vegar sú að það er verið að leggja til almenna skatta á allt atvinnulífið á næsta ári og ég held að það hafi verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (Forseti hringir.) sem orðaði það einhvern veginn þannig að það sé ekkert eins almennt í ríkisrekstri og tímabundnir skattar, þannig verður það nú. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja: Er þessi hugsun algerlega dottin út úr áætlunum eða kortlagningu ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins?