Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:46]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að hvalrekaskattinum af því að ég fór ekki yfir það í fyrra svari mínu. Framlegð fyrirtækja hefur verið að aukast. Nú var vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að klárast og eitt af því markverða sem þar kom fram er að nú er verið að ræða um að mikilvægt sé að svokölluð kostnaðarverðbólga fari ekki af stað og verði hagkerfinu mjög erfið. Aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bendir til að mynda á það að arður og framlegð fyrirtækja hefur verið mjög há eftir Covid og það sé ekkert óeðlilegt að fyrirtækin taki á sig þá verðbólgu sem er komin af stað til að ná henni niður þannig að við séum ekki komin í víxlverkun launa og verðlags. Ég vil bara nefna það.

Varðandi hvalrekaskattinn, þetta er ekki mín uppfinning — það er nú bara þannig að fyrrum forsætisráðherra Breta, Margrét Thatcher, lagði slíkan skatt á bankana á sínum tíma vegna þess að bankarnir höfðu hagnast verulega þegar verðbólguskot varð í Bretlandi og þetta gerði hún til að jafna byrðarnar. Ég hef ekkert hvikað frá þeirri hugmyndafræði þó að ég hafi ekki alveg náð að sannfæra alla um hversu snjöll hún er.

Mig langar að nefna varðandi sjávarútveginn — matvælaráðherra hefur kynnt hugmyndir og fyrirætlan um að hækka greiðslur eða auka álögur á sjávarútveginn. Það er því kannski ekki alls kostar rétt að við séum ekki að fara að auka það eins og ég hef nefnt í málflutningi mínum, ég tel að það sé mikilvægt. Að lokum varðandi fjölmiðla — við höfum verið að fara yfir þá málaflokka sem ég ber ábyrgð á og það er aðhald á þá alla. Ég tel ekkert óeðlilegt við að það aðhald blasi líka við Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Umfang þess — hv. þingmaður nefndi milljarð eða eitthvað slíkt, en við erum að mínu mati ekki að horfa á slíkar tölur eins og staðan er núna.