Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:44]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og segja aðeins varðandi tölfræðina, sem hv. þingmaður nefndi, að það er rétt að við getum gert miklu betur þegar kemur að ákveðnum þáttum í íslensku menntakerfi. Ég vil byrja á því að segja að um leið er margt rosalega jákvætt að gerast. Ef maður fer um og hittir fólk, hvort sem það er varðandi Kveikjum neistann-verkefnið í Vestmannaeyjum, nú eða inn í einstakra skóla, við höfum gert það ítrekað að heimsækja einstaka skóla, kaffistofurnar, og kynnst verkefnum sem þar eru unnin, þá er gróskumikið starf unnið mjög víða. Það sem hefur vantað er einhver miðlægur aðili, miðlægur stuðningur og fagþekking til að aðstoða aðra aðila við að ráðast í sambærilegar breytingar og fá jafnframt betri tölfræði til að mæla árangur af þeim breytingum. Hvort tveggja erum við að styrkja grunninn undir, vil ég meina, með þessum breytingum. Það sem mér fannst áhugavert við verkefnið Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum var kannski ekki kennsluaðferðin á lestrinum heldur það hvernig þeir eru búnir að kveikja neistann í heilu samfélagi til að vilja vera með mikinn metnað í skólastarfinu. Það er haldin ráðstefna og það mæta á annað hundrað manns í Vestmannaeyjum á ráðstefnu til að ræða gæði skólastarfs. Þeir eru búnir að breyta skólanum og setja inn hreyfingu á hverjum degi. Þeir eru að setja inn ákveðna ástríðutíma, eru að þróa það upp í aldri, eru núna komnir með 2. bekk og eru byrjaðir að hugsa: Hvernig eigum við að hafa ástríðutíma þegar einstaklingurinn er kominn í 5., 6. og 7. bekk? Hvað þarf þá? Þá er umræðan um jafnvel að það þurfi að tengja atvinnulífið meira inn í það o.s.frv. Þannig að þróunarverkefnið sem þar á sér stað er gríðarlega jákvætt, (Forseti hringir.) líkt og víða annars staðar. Það sem við þurfum að gera, og er hugsunin með þessari nýju stofnun, er að það sé miðlægur þjónustuaðili (Forseti hringir.) við að miðla slíkum verkefnum; þekkingu, fagþekkingu, aðstoð við innleiðingu þeirra, mæla árangurinn. (Forseti hringir.) Við þurfum að skapa grunn undir að þessi stofnun geti orðið sá aðili. Þá mun þessi gróska nýtast (Forseti hringir.) sem er alls staðar í kerfinu okkar.

(Forseti (DME): Og þá áminni ég hæstv. ráðherra um að virða ræðutímann. Það verður enn þá meira krefjandi í næstu umferð þar sem ræðutíminn er ein mínúta.)

(Menntmrh.: Ég biðst afsökunar, frú forseti.)