153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

uppbygging og rekstur flugvalla og þjónusta við flugumferð.

941. mál
[18:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari því fyrst sem kom fram hjá hv. þingmanni síðast, er varðar Reykjavíkurflugvöll, þá er það langt í frá. En Reykjavíkurflugvöllur er eins og hann er og hann þarf auðvitað viðhald og endurnýjun og það þarf auðvitað að laga flugstöðina. Á Akureyri og Egilsstöðum þarf að byggja upp bæði flughlöð og flugbrautir til þess að þeir vellir geti í raun og veru tekið við þeim flugvélum sem þar eru undir. Áhersla verður lögð á uppbyggingu þeirra sem varaflugvalla en mikilvægi Reykjavíkurflugvallar má alls ekki vanmeta, það er gríðarlega mikið í þessu kerfi okkar í dag. Það hefur verið bent á það í skýrslum að það þurfi tvo flugvelli hér vestan Hellisheiðar eða á suðvesturhorninu með stuttu millibili og það hefur oft sýnt sig að það er nauðsynlegt.

Varðandi einkaflugvélarnar er varaflugvallargjaldið lagt á hvern farþega og það verður að vera einfalt, það er skattur og verður að vera skilgreint og það verður að vera skýrt og þess vegna er það gert svona. En það ætti hins vegar ekki að koma í veg fyrir að flugvellir geti haft sínar eigin gjaldskrár um aðrar flugvélar eftir því sem þeim hentar og þar með einkaflugvélar ef þeir vilja.